Íslenski boltinn

Dreymir um hita­lagnir og höll

Sindri Sverrisson skrifar
Baldur Sigurðsson og Davíð Smári Lamude fóru yfir vallarmál Vestramanna í nýjasta þætti Lengsta undirbúningstímabils í heimi, á Stöð 2 Sport.
Baldur Sigurðsson og Davíð Smári Lamude fóru yfir vallarmál Vestramanna í nýjasta þætti Lengsta undirbúningstímabils í heimi, á Stöð 2 Sport. Stöð 2 Sport

Vallarmál Vestramanna hafa verið nokkuð í umræðunni í vetur og óvíst er hvort þeir geti spilað á nýjum heimavelli í næsta mánuði, þegar keppni í Bestu deildinni hefst. Þjálfarinn Davíð Smári Lamude fór yfir málin með Baldri Sigurðssyni í nýjasta þætti Lengsta undirbúningstímabils í heimi.

Fyrstu tveir leikir nýliðanna eru á útivelli, gegn Fram 7. apríl og við Breiðablik 13. apríl, en fyrsti heimaleikurinn er áætlaður 20. apríl, gegn KA á Kerecisvellinum.

Myndu reyna að skipta við hin liðin

Til þess þurfa veðurguðirnir hins vegar að vera afar hliðhollir Vestfirðingum, því bíða þarf eftir þíðu til að leggja gervigras á völlinn sem áður var með náttúrulegt gras. En hvað ef það tekst ekki í tæka tíð?

„Þá verðum við að reyna að færa þessa fyrstu heimaleiki, svissa við hin liðin,“ segir Davíð Smári.

Baldur var með á æfingu á æfingavelli Vestra, þar sem nýtt gervigras var lagt í október í fyrra. Frost í jörðu hafði hins vegar áhrif á gæði æfingarinnar, líkt og í allan vetur, og draumur Davíðs Smára er að fá hitalagnir undir nýja völlinn.

Klippa: LUÍH - Baldur fékk að kynnast völlunum á Ísafirði

Algjört lykilatriði að fá lagnir

„Auðvitað er verið að vinna í því að bæta alla aðstöðu hérna en staðreyndin er samt sú að við erum með tvo frosna velli í staðinn fyrir einn. Það er bara staðreyndin. Auðvitað verðum við að fá lagnir undir völlinn svo það sé hægt að hita hann upp seinna meir, því það er ekki framkvæmd sem farið er í eftir á. Það er algjörlega krúsjal fyrir mér að við getum verið að byggja hérna upp starf sem er allt árið, en ekki eftir veðri og vindum,“ segir Davíð Smári.

En er ekki eina leiðin að fá knattspyrnuhöll, til að geta æft allt árið um kring?

„Auðvitað snýst þetta allt um peninga. Ég held að stærsta málið sé að fá lagnir undir þennan völl. Þú sérð að stóru félögin í Reykjavík eru svolítið mikið að fara út úr höllunum. Ég er ekki að segja að það væri ekki frábært að fá höll hérna. Það væri alveg frábært. En eitt skref í einu og ef hægt væri að fá lagnir í þennan völl þá væri það algjört lykilatriði í að reyna að búa til unga leikmenn hérna sem geta spilað fyrir meistaraflokk Vestra,“ segir Davíð Smári.

Þáttinn í heild má finna á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×