Sport

FH vann sigur í bikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bikarmeistarar FH.
Bikarmeistarar FH. Heimasíða FRÍ

FH varð um helgina bikarmeistari í frjálsum íþróttum en mótið fór fram á heimavelli Hafnfirðinga í Kaplakrika.

Um var að ræða átjándu bikarkeppni FRÍ og voru alls þrjú mótsmet sett á mótinu. 

Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet í kúluvarpi með kasti upp á 16,62 metra og þá hljóp Júlía Kristín Jóhannesdóttir á 8,59 sekúndum í 60 metra grindahlaupi sem einnig er mótsmet. Loks var það Elías Óli Hilmarsson sem jafnaði metið í hástökki karla þegar hann stökk hæst slétta tvo metra.

FH-ingar unnu sjálfa bikarkeppnina nokkuð örugglega. Karlalið FH náði samtals í 41 stig og kvennaliðið 51 stig og samtals fékk FH því 92 stig. Breiðablik varð í 2. sæti með 73 stig og ÍR í 3. sæti með 69 stig.

FH varð efst í karla- og kvennaflokki sem og heildarstigakeppninni.

Í unglingaflokki 15 ára og yngri var það lið ÍR sem varð hlutskarpast. ÍR varð efst í stúlknakeppninni með 83,5 stig en Breiðablik í piltakeppninni með 64 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×