Fótbolti

Á­horf­endum fækkar í Sádi-Arabíu þrátt fyrir ó­hóf­lega eyðslu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Cristiano Ronaldo er andlit deildarinnar en hann var einn af fjölmörgum sem fluttist til S-Arabíu í fyrra
Cristiano Ronaldo er andlit deildarinnar en hann var einn af fjölmörgum sem fluttist til S-Arabíu í fyrra Khalid Alhaj/MB Media/Getty Images

Þrátt fyrir að lið hafi eytt himinháum fjárhæðum í leikmenn undanfarið ár fækkaði áhorfendum í sádi-arabísku úrvalsdeildinni í fótbolta um 10 prósent milli ára. 

Bloomberg tók saman tölurnar. Áhorfendafjöldi á þessu tímabili hefur verið 8,321 manns að meðaltali á hverjum leik, 10 prósent minna en á sama tíma í fyrra. 

Fjöldi þátta er talinn stuðla að þessu vandamáli og er þar meðal annars nefnt að þó leikmenn séu margir í hæsta gæðaflokki séu vallaraðstæður og innviðir liðanna ekki enn á þeim stalli. Leikdagsupplifun áhorfenda þykir ekki góð og erlendir ferðamenn hafa ekki flykkst til leikja í þeim mæli sem búist var við. 

Carlo Nohra, forstöðumaður deildarinnar, gaf það í skyn að lið deildarinnar myndu ekki eyða eins háum fjárhæðum á næsta tímabili líkt og þau hafa gert hingað til. 

Hann sagði þetta allt hluta af áformum deildarinnar til að laða leikmenn að, en bjóst við að sjá yfirvegaðri nálgun í næsta félagaskiptaglugga. Innan þriggja ára reiknaði hann með að liðin væru orðin sjálfbær, að þau selji leikmenn til að fjármagna önnur kaup og treysti ekki á styrki úr ríkissjóði til þess. 

Ljóst er að metnaðurinn er mikill í Sádi-Arabíu og fjöldi stjörnuleikmanna hefur haldið þangað en við þeim blasir mikil áskorun ef ævintýrið á að halda áfram.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×