Fótbolti

Real stefnir hrað­byri að spænska titlinum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vinicius Jr. fagnar öðru marka sinna í dag.
Vinicius Jr. fagnar öðru marka sinna í dag. Vísir/Getty

Það virðist fátt geta stöðvað Real Madrid í vegferð liðsins að spænska meistaratitlinum í knattspyrnu. Liðið vann í dag öruggan sigur á Osasuna á útivelli.

Real Madrid var með sjö stiga forskot á toppi La Liga fyrir leikinn í dag en Osasuna var í 10. sæti deildarinnar. 

Leikurinn var aðeins tæplega fjögurra mínútna gamall þegar brasilíumaðurinn Vinicius Jr. kom Real yfir. Heimamenn jöfnuðu reyndar þremur mínútum síðar þegar Króatinn Anti Budimir jafnaði metin í 1-1 en Dani Carvajal kom Real Madrid Real yfir á ný á 18. mínútu og staðan 2-1 fyrir toppliðið í hálfleik.

Í síðari hálfleiknum gekk Real síðan endanlega frá leiknum. Brahim Diaz kom Real í 3-1 eftir sendingu Federico Valverde og Vinicius Jr. skoraði sitt annað mark á 64. mínútu og Real komið í 4-1.

Heimamenn minnkuðu muninn í uppbótartíma en það dugði ekki til og Real er nú með tíu stiga forystu á toppi La Liga. Girona sem er í öðru sætinu á leik til góða gegn Getafe sem hefst núna klukkan 17:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×