Innlent

Ferða­­menn greiddu 200 milljónir í bíl­a­stæða­­gjöld við Selja­lands­­foss

Hólmfríður Gísladóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Seljalandsfoss er afar vinsæll meðal ferðamanna.
Seljalandsfoss er afar vinsæll meðal ferðamanna. Vísir/Vilhelm

Ferðamenn greiddu rúmlega 200 milljónir króna í bílstæðagjöld við Seljalandsfoss í fyrra. Fjöldi einkabifreiða sem óku að fossinum var tæplega 213 þúsund og þá komu 12 þúsund bifreiðar frá aðilum í ferðaþjónustu.

Þetta segir í svörum stjórnarformanns Seljalandsfoss við fyrirspurn Vísis.

Verðskránni fyrir að leggja við fossinn var breytt í fyrra, í fyrsta sinn frá árinu 2017. 

Gjald fyrir einkabíla var hækkað í 900 krónur, fyrir jeppa með allt að átta farþega 1.000 krónur, fyrir hópferðabíla með allt að 19 farþega 1.800 krónur og fyrir stórar rútur með yfir 20 farþega 3.500 krónur.

Ekki hefur verið lagt mat á það um hversu marga einstaka gesti er að ræða.

„Á undanförnum árum höfum við farið í ýmsar fjárfestingar og endurbætur á svæðinu svo sem ný salerni, breytingar á bílastæðum, ný skýli yfir gjaldtökubúnað, endurnýjun á göngustígum, merkingar o.fl.“ segir Krisjtán Ólafsson um ráðstöfun fjármunana sem aflað er með gjaldtökunni.

„Starfsemin hjá Seljalandsfossi ehf. dags daglega felur dags rekstur á salernum þrifum oþh, umferðarstýringu, leiðbeina gestum, týna upp rusl, sinna viðhaldi og þess háttar. Þessari vinnu er sinnt af fólki úr nærumhverfi,“ segir hann.

Kristján segir félagið aldrei hafa greitt arð, enda sé um að ræða sjóð sem sé ætlað að standa straum af fyrirhuguðum framkvæmdum við gerð nýrra bílastæða, göngustíga og merkinga, nýjum salernum og fleiru.

Þá segir hann engar áætlanir liggja fyrir varðandi mögulegan gestafjölda í ár en mönnum sýnist að það sé sterk fylgni á milli fjölda ferðamanna sem koma til Íslands og fjölda einkabíla sem koma að fossinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×