Skoðun

Frum­hlaup Sjálf­stæðis­manna í héraði?

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar

Við gleðjumst flest yfir því að stórir hópar launafólks á almennum vinnumarkaði hafi skrifað undir kjarasamninga til næstu fjögurra ára með aðkomu aðgerða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Markmið samningsaðila eru skýr; að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta, auka kaupmátt launafólks og vinna gegn verðbólgu. Vaxtakostnaður hefur áhrif á fjárhag sveitarfélaga og rekstur hins opinbera og heimilin í landinu. Talið er að sveitarfélögin spari um 2,5 milljarða fyrir hvert prósentustig lægri verðbólgu.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs lögðu fram þingsályktunartillögu á síðasta ári, þess efnis að mennta- og barnamálaráðherra skyldi falið að vinna heildstæða stefnu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir urðu síðar ein af kröfum verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningsgerð. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir hafa áhrif á næringaröryggi nemenda, eru efnahagslegur stuðningur við fjölskyldur, geta stuðlað að bættum námsárangri nemenda og auka félagslegt jafnrétti. Sem félagsleg aðgerð má reikna með að hún kosti sveitarfélögin í heild 1,2 milljarða á ársgrundvelli.

Aðgerðirnar og umbætur munu skila fólkinu í landinu vaxandi velsæld á næstu árum sem vert er að gleðjast yfir. Sjálfstæðisflokkurinn situr í ríkisstjórn, með Vinstrihreyfingunni grænu framboði og Framsóknarflokknum, og tekur þannig þátt í sameiginlegum fjölþættum aðgerðum með Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði.

Fjölmargir oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum, eru þó langt í frá glaðir, og rita grein þar sem ákvörðunin um þátttöku sveitarfélaganna er gagnrýnd vegna skorts á samráði. Aðgerðin sem mun ná til ríflega 47.000 grunnskólabarna, er stórt kjaramál fyrir fjölskyldufólk og liður í veruleika kjarasamninga þar sem niðurstöður krefjast þess að samningsaðilar taki sameiginlega ábyrgð til að tryggja sátt á vinnumarkaði. Að horfa fram hjá skyldu allra, líka sveitarfélaga, til að koma að slíkri sátt er frumhlaup af hálfu oddvitanna.

Höfundur er bæjarfulltrúi á Akureyri, varaþingmaður og ritari Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×