Innlent

Fimm­tíu milljónir ár­lega í rekstur bílastæða við HÍ

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Vísir/Ívar Fannar

Gjaldtaka á bílastæðum við Háskóla Íslands hefst í haust. Rektor háskólans segir tilganginn að draga úr bílaumferð um svæðið og auka kostnaðarvitund starfsfólks og nemenda um bílastæðin en Háskólinn hefur borgað fimmtíu milljónir árlega fyrir rekstur stæðanna.

Gjald verður tekið fyrir notkun bílastæða milli átta og fjögur á virkum dögum og verður bílastæðum skipt í tvö gjaldsvæði. Á völdum stæðum næst byggingum Háskólans verður alltaf tekið gjald líkt og verið hefur í skeifunni, svokölluðu, við Aðalbyggingu og við Gimli.

Önnur stæði verða í gjaldflokki P3 og þar verður einnig tekið almennt gjald en nemendur og starfsfólk munu geta skráð bíla sína til að fá heimild til að leggja í þau stæði með mánaðarlegri áskrift upp á fimmtán hundruð krónur. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að gjaldtaka hafi verið til umræðu í árafjöld.

„Við erum að huga að umhverfismálum fyrir það fyrsta, það er hérna að rísa spítali og háskólinn er að stækka og við verðum að bregðast við varðandi þessa umferð sem er að aukast mjög á Hringbrautinni. Við erum líka að horfa á það að háskólinn er að greiða talsverðan kostnað, tugi milljóna á ári í að sjá um bílastæðið.“

Rekstur bílastæðanna kostar Háskólann um fimmtíu milljónir árlega. Jón Atli segir að fólk hafi gagnrýnt Háskólaráð fyrir að skrefið sé ekki nógu stórt en þetta sé aðeins fyrsta skrefið.

„Síðan í framhaldinu getum við farið í frekari aðgerðir svo þetta er fyrsta skrefið í að bregðast við þessum vanda.“

Stúdentaráð Háskóla Íslands vildi mótvægisaðgerðir og að strætókort yrðu niðurgreidd.

„Því miður, fjárhagur Háskóla Íslands er þannig að við getum ekki gert það og það hefur líka áhrif á það að við tökum þetta litla skref, sem er 1500 krónur á mánuði til þess að byrja þetta, bregðast við vandanum að einhverju leyti en síðan höfum við í hyggju að halda áfram og reyna að koma með einhverjar mótvægisaðgerðir fyrir stúdenta og starfsfólk svo við getum hjálpað þeim.“


Tengdar fréttir

Gjaldtaka hefst á bílastæðum HÍ í haust

Gjaldtaka mun hefjast á bílastæðum við Háskóla Íslands í haust. Gjald verður tekið fyrir notkun bílastæða milli átta og fjögur á virkum dögum og verður bílastæðum skipt í tvö gjaldsvæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×