Erlent

Danir lengja her­skylduna

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir að markmið breytinganna sé að stórefla danska herinn.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir að markmið breytinganna sé að stórefla danska herinn. EPA

Danska ríkisstjórnin hyggst lengja herskyldu í landinu úr fjórum mánuðum í ellefu, koma á herskyldu fyrir konur og stórauka framlög til varnarmála.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra og Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra greindu frá þessu á blaðamannafundi í morgun.

„Við leggjum til að það sama eigi við um kynin,“ sagði Frederiksen á fundinum, en konur hafa verið undanþegnar herskyldu í landinu. Forsætisráðherrann sagði að markmið breytinganna sem kynntar voru í morgun væru að styrkja danska herinn.

Í frétt DR segir að fjárframlög til hersins verði einnig stóraukin, en frá á með í ár muni 2,4 prósent af vergri landsframleiðslu Danmerkur renna til varnarmála.

Frederiksen sagði að ekki sé ráðist í þessar breytingar þar sem ríkisstjórnin óski eftir stríði, heldur til að komast hjá stríði.

Ráðherrarnir sögðu aðgerðir Rússlands að undanförnu hafa breytt stöðunni í álfunni og við því þurfi að bregðast. Sagði utanríkisráðherrann Rasmussen að Danmörku stafi ekki ógn af Rússlandi en að Danmörk eigi ekki að láta það gerast að svo gæti orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×