Fótbolti

Sarri sagði upp hjá Lazio

Sindri Sverrisson skrifar
Óvíst er hvað nú tekur við hjá Maurizio Sarri.
Óvíst er hvað nú tekur við hjá Maurizio Sarri. Getty/Nicolo Campo

Maurizio Sarri er hættur sem knattspyrnustjóri Lazio, viku eftir að ítalska liðið féll úr leik gegn Bayern München í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þessi 65 ára gamli Ítali, sem áður stýrði Juventus, Chelsea og Napoli, lét forráðamenn Lazio vita af ákvörðun sinni síðdegis í dag, samkvæmt ítalska fréttamanninum Fabrizio Romano.

Sarri tók við Lazio árið 2021 og skilur við liðið í 9. sæti ítölsku A-deildarinnar, en liðið tapaði 2-1 fyrir Udinese á heimavelli í gærkvöld.

Það var fjórða tap Lazio í röð í öllum keppnum. Liðið hafði þó unnið fyrri leik sinn gegn Bayern, 1-0, en tapaði svo 3-0 á útivelli í síðustu viku.

Lazio er hins vegar enn með í ítölsku bikarkeppninni og mætir þar Juventus í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×