Fótbolti

Ancelotti: Aldrei áður séð komið jafn illa fram við einn leik­mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Junior fær mikinn stuðning frá þjálfara sínum Carlo Ancelotti.
Vinicius Junior fær mikinn stuðning frá þjálfara sínum Carlo Ancelotti. Getty/Pablo Morano

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, fordæmir það hvernig farið er með brasilíska knattspyrnumanninn Vinícius Júnior og segist aldrei hafa séð annað eins.

Vinícius Júnior skoraði eina markið í 1-1 jafntefli Real Madrid á móti RB Leipzig á Bernabeu í vikunni en það tryggði liðinu sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Ég hef aðeins skoðað söguna, tölfræðina og annað en ég hef áður séð komið jafn illa fram við einn leikmann og við Vinícius,“ sagði Carlo Ancelotti á blaðamannafundi fyrir leik Real Madrid í dag.

„Það er sparkað í hann, það er flautað á hann, hann er svívirtur. Og hvað gerir hann? Hann skorar mörk og gefur stoðsendingar. Svo á ég að tala um viðhorfið hans. Nei, kemur ekki til greina,“ sagði Ancelotti.

„Allir ættu að breyta sínu viðhorfi gagnvart Vinícius. Út frá minni reynslu þá hefur svo hæfileikaríkur leikmaður aldrei þurft að þola það sem Vinícius hefur þurft að þola. Á móti Rayo Vallecano fékk hann karakterspark í höfuðið en það var ekki einu sinni gult spjald. Nú eru allir að biðja um rautt spjald á hann fyrir að ýta manni á móti Leipzig,“ sagði Ancelotti.

Vinícius hefur skorað 9 mörk í 18 deildarleikjum á leiktíðinni og 3 mörk í 5 leikjum í Meistaradeildinni. Það er bara Jude Bellingham sem hefur skorað meira en hann í Real Madrid liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×