Innlent

Nýr fríverslunarsamningur við Ind­land undir­ritaður

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson skrifaði undir samninginn í Nýju-Delí.
Bjarni Benediktsson skrifaði undir samninginn í Nýju-Delí. Stjórnarráðið

Nýr fríverslunarsamningur milli Indlands og EFTA-ríkjanna, það er Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss var undirritaður í Nýju Delí í dag. Bjarni Benediktsson skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Í samningnum er kveðið á um tollkjör, skuldbindingar í þjónustuviðskiptum, vernd hugverka, fjárfestingar, viðskipti og sjálfbæra þróun sem og úrlausn deilumála ef upp koma.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að samningurinn bæti markaðskjör á helstu útflutningsvörum Íslands til Indlands. Frá gildistöku hans muni sjávarafurðir og helstu iðnaðarvörur sem Íslands flytur út ýmist njót fulls tollfrelsis eða umtalsverðrar tollalækkunar.

„Samningurinn hefur mikla þýðingu fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og skapar traustan grunn fyrir framtíðarviðskipti við Indland,“ segir Bjarni.

„Þá styrkir hann einnig pólitísk samskipti Íslands og EFTA-ríkjanna við fjölmennasta lýðræðisríki heims og fimmta stærsta hagkerfið á heimsvísu sem er í stöðugum vexti.“

Í samningnum er einnig kveðið á um að EFTA-ríkin muni sameiginlega stuðla að auknum fjárfestingum fyrirtækja frá EFTA-ríkjunum með það að leiðarljósi að styðja við efnahagsþróun, nýsköpun og græn umskipti á Indlandi. Á sama tíma muni Indland stuðla að hagstæðum skilyrðum til fjárfestinga, meðal annars með sérstöku þjónustuveri fyrir fjárfesta frá EFTA-ríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×