Fótbolti

Gerðist síðast átta árum áður en Orri fæddist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson í leiknum á móti Manchester City á Ethiad í gærkvöldi.
Orri Steinn Óskarsson í leiknum á móti Manchester City á Ethiad í gærkvöldi. AP/Dave Thompson

FC Kaupmannahöfn stillti þremur táningum upp í byrjunarliðinu sínu á móti Manchester City í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.

Ekkert lið hefur gert það í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í 28 ár eða síðan Ajax gerði það árið 1996. Þetta eru líka einu liðin í sögunni sem hafa stillt upp svo mörgum ungum leikmönnum.

Táningarnir í byrjunarliði FCK voru hinn 19 ára gamli Orri Steinn Óskarsson, hinn nítján ára gamli William Clem og hinn átján ára gamli Victor Mow Froholdt.

FCK varð að sætta sig við 3-1 tap og að vera úr leik í Meistaradeildinni en Orri Steinn lagði upp mark liðsins sem minnkaði muninn í 2-1 í fyrri hálfleiknum.

Þetta gerðist síðast í átta liða úrslitum 1996 þegar Ajax mætti þýska liðinu Borussia Dortmund. Þá voru enn meira en átta ár í það að Orri Steinn fæddist og faðir hans Óskar Hrafn Þorvaldsson að undirbúa sig fyrir tímabil með KR í Sjóvár-Almennra deildinni.

Þá voru þrír táningar í byrjunarliði Ajax en þeir voru hinn nítján ára gamli Nwankwo Kanu, hinn átján ára gamli Nordin Wooter og hinn átján ára gamli Kiki Musampa í öðrum leiknunm og í hinum byrjuðu Kanu og Musampa en þá var hinn nítján ára gamli Patrick Kluivert í fremstu víglínu.

Ajax vann báða leikina, Kiki Musampa skoraði eina markið í 1-0 sigri í Amsterdam og Patrick Kluivert var bæði með mark og stoðsendingu í 2-0 sigri í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×