Fótbolti

Real Madrid á­frýjar rauða spjaldinu hjá Jude Belling­ham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham talar við Jesús Gil Manzano dómara eftir leikinn. Hann fékk ekki markið gilt heldur að líta rauða spjaldið.
Jude Bellingham talar við Jesús Gil Manzano dómara eftir leikinn. Hann fékk ekki markið gilt heldur að líta rauða spjaldið. Getty/Aitor Alcalde/

Real Madrid ætlar að mótmæla formlega og áfrýja rauða spjaldinu sem stórstjarnan Jude Bellingham fékk eftir lokaflautið í 2-2 jafnteflisleiknum á móti Valencia í spænsku deildinni um helgina.

Enski miðjumaðurinn fékk þá rauða spjaldið fyrir að mótmæla því að markið hans var ekki dæmt gilt. Dómarinn flautaði leikinn af sekúndum áður en Bellingham kom boltanum í markið.

Samkvæmt heimildum ESPN þá ætlar Real Madrid að leita réttar síns og áfrýja rauða spjaldinu.

Í umsögn dómarans kom fram að Bellingham hafi sýnt ógnandi tilburði og öskrað aftur og aftur „að þetta hafi verið f-g mark“.

Markið hefði tryggt Real Madrid sigurinn en dómarinn flautaði leikinn af þegar Real Madrid var í stórsókn og Brahim Díaz að fara að senda boltann fyrir markið.

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, hélt því fram að Bellingham hafi ekki svívirt dómarann.

„Ég sá engar svívirðingar. Hann sagði á ensku: Þetta er f-g mark. Hann var bara að segja það sem við vorum allir að hugsa. Dómarinn leyfði leiknum að halda áfram. Ég held að hann hafi gert mistök. Það var ljóst hvað Bellingham sagði,“ sagði Carlo Ancelotti.

„Hann var vissulega mjög ákafur í viðbrögðum sínum en það er eðlilegt miðað við það hvað gerðist. Þetta var engin svívirðing, ekki sú minnsta,“ sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×