Fótbolti

Ten Hag svarar „hlutdrægum“ Carragher fullum hálsi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik ten Hag gefur lítið fyrir gagnrýni Jamie Carragher.
Erik ten Hag gefur lítið fyrir gagnrýni Jamie Carragher. James Gill - Danehouse/Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur svarað gagnrýni sparkspekingsins Jamie Carragher, fyrrverandi leikmanni Liverpool, og segir Carragher ekki vera hlutlausan í sinni umfjöllun.

Carragher sparaði ekki stóru orðin í gagnrýni sinni á Manchester United eftir 2-1 tap liðsins gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi þar sem hann sagðist aldrei hafa séð lið verjast eins og United.

„Við förum yfir af hverju varnarleikur þeirra er slakur og þeir geta ekki varist skyndisóknum. Það er enginn hraði í varnarlínunni og það vantar hlaupagetu á miðjunni,“ sagði Carragher meðal annars.

Ten Hag hefur nú svarað gagnrýninni og segir að Carragher sé ekki hlutlaus í sinni umfjöllun. Varnarmaðurinn fyrrverandi hafi gegnrýnt Manchester United frá því hann hóf fyrst störf sem sparkspekingur.

„Sumir af þessum sérfræðingum eru hlutlausir í sinni umfjöllun og gefa mjög góð ráð. Aðrir eru mjög hlutdrægir,“ sagði Ten Hag.

„Jamie Carragher er búinn að vera að gagnrýna okkur frá upphafi og nú vill hann koma sínum skilaboðum áleiðis.“

„Það sem hann sagði á kannski við um fyrsta hálftíma leiksins. Fulham kom okkur á óvart með því hvernig þeir settu leikinn upp á miðjunni og við þurftum að finna lausnir við því. En við fundum lausnir eftir hálftíma leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×