Sport

Á­frýjun Rússa hafnað og úti­lokun stað­fest

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fólk sem flykktist út á götu til að mótmæla þátttöku Rússlands á Ólympíuleikunum.
Fólk sem flykktist út á götu til að mótmæla þátttöku Rússlands á Ólympíuleikunum. Thierry Monasse/Getty Images)

Áfrýjun Ólympíunefndar Rússlands gegn ákvörðun Alþjóða Ólympíunefndarinnar um aðildarbann var hafnað af áfrýjunardómstóli íþrótta. 

Alþjóða Ólympíunefndin (IOC), leysti upp starfsemi rússnesku Ólympíunefndarinnar (ROC) í október og útilokaði úr hreyfingunni. Starfsleyfi Rússa var fellt úr gildi og nefndin bönnuð frá störfum um óákveðinn tíma. 

Áfrýjun Rússa gegn dómnum var hafnað og ákvörðunin um útilokun úr hreyfingunni staðfest.

Þrátt fyrir að mega ekki starfrækja Ólympíunefnd í Rússlandi geta íþróttastjörnur þjóðarinnar tekið þátt á mótinu, en verða að gera það undir hlutlausum fána, án stuðningsyfirlýsinga um stríðið og þjóðsöngur Rússlands verður ekki spilaður ef þeir vinna gullverðlaun. 

Auk þess mega keppendur ekki hafa bein tengsl við heri landsins eða leyniþjónustuna. Úkraínu grunar að Rússar séu ekki að fylgja þeim reglum ítarlega og sendu bréf á Thomas Bach, forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar, þar sem skorað var á nefndina til að fylgjast mjög vel með og kanna hvort Rússar séu að fylgja þeim reglum sem þeim hefur verið sett.

Ólympíuleikarnir fara fram í París 26. júlí til 11. ágúst. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×