Skoðun

Hvað á ég að gera við Heima­klett?

Skúli Gunnar Sigfússon skrifar

Það koma stundum upp furðumál á Íslandi sem maður skilur hvorki upp né niður í. Sum þeirra eiga það til að vekja mikla athygli sökum þess hve undarleg þau eru.

Nýjasta furðufréttin er frétt um að ríkið ætli sér að þjóðnýta eyjar og sker í kringum landið. Eðli málsins samkvæmt hafa margir býsnast yfir þessum gjörningi.

Hins vegar vantar alla umræðu um tilgang þessa fyrir eigendur ríkisins, þ.e. þegna þessa lands?

Hvað á ég sem Íslendingur og skattgreiðandi að gera við Heimaklett í Vestmannaeyjum eða stóran hluta Grímseyjar? Er eignarhaldið að fara að skila ríkinu tekjum? Ætlar ríkið að selja ferðir á Heimaklett eða til Grímseyjar eða að stunda dúntekju á eyjum í Breiðafirði? Er eignarhaldið á þessum eyjum og skerjum að fara að leysa vandann á bráðadeild Landspítalans eða byggja hjúkrunarheimili fyrir kynslóðina sem með striti sínu lagði grunninn að þeirri velmegun sem við njótum ríkulega í dag? Er þjóðnýtingin að fara að hjálpa Grindvíkingum? Auðvitað ekki.

Ef það er almennt óvissa um eignarhald á ákveðnum svæðum, færi þá ekki betur á því að láta viðkomandi sveitarfélag eiga og sjá um þessar náttúruperlur sem rætt er um í yfirtökuvegferð ríkisins? Hvað er unnið með því að ríkið verði þinglýstur eigandi þessara skerja og eyja? Verndunarsjónarmið eiga alls ekki við enda getur ríkið tekið á því með friðun og lagasetningu þótt sveitarfélög séu eigendur landsins.

Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að náttúruhamfarirnar á Suðurnesjum séu stærsta áskorun sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum. Á sama tíma ákveður fjármálaráðherra að eyða orku, peningum og tíma í að þjóðnýta Heimaklett og sker í kringum landið að því er virðist án nokkurs tilgangs. Miðað við fréttaflutning af málinu þá er eins og ríkisvaldið sé á einhvers konar sjálfstýringu að vinna að þjóðnýtingu, því hvorki ráðherrann né Óbyggðanefnd vilja vera í forsvari fyrir málið.

Þessi undarlegi gjörningur gefur Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fjármálaráðherra tækifæri til að endurskoða þjóðlendulögin og draga úr ágangi hins opinbera. Hún hefur þegar boðað að ríkið eigi ekki að leita úrlausna fyrir dómstólum þó einstaklingar kunni að gera það. Það er jákvætt skref. Við eigum þó eftir að sjá það raungerast, því svo virðist sem Óbyggðanefnd fari sínu fram hvað sem líður tauti stjórnmálamanna.

Höfundur er athafnamaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×