Innlent

Til­nefningar­ferlið hefst á ný 7. mars næst­komandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ef fer sem horfir fær Ísland nýjan biskup í apríl.
Ef fer sem horfir fær Ísland nýjan biskup í apríl. Vísir/Vilhelm

Forsætisnefnd kirkjuþings hefur samþykkt tillögu kjörstjórnar þjóðkirkjunnar um að tilnefningarferlið fyrir biskupskjör hefjist á ný þann 7. mars næstkomandi.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Þar segir að tilnefningarferlið muni standa yfir í fimm daga en biskupskjörið sjálft hefjast í annarra vikunni í apríl. Þá verður kosið á milli þeirra þriggja sem fá flestar tilnefningar í tilnefningarferlinu.

Tilnefningarferlið hófst formlega 1. febrúar síðastliðinn og lauk 7. febrúar en tæknilegir örðugleikar urðu þess valdandi að ekki reyndist unnt að telja tilnefningarnar sem bárust. Af þeim 164 prestum og djáknum sem hafa tilnefningarrétt tóku 160 þátt.

Kjörstjórn þjóðkirkjunnar lagðist þá undir feld og komst að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að auglýsa ferlið upp á nýtt, heldur stæði það enn yfir og yrði einfaldlega endurtekið. Til stóð að taka við tilnefningum að nýju frá og með 9. febrúar en hætt var við þegar engin svör bárust frá forsætisnefnd um málið.

Sjö hafa lýst áhuga á biskupsembættinu; Bjarni Karlsson, Elínborg Sturludóttir, Guðrún Karls Helgudóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson, Helga Soffía Konráðsdóttir, Kristján Björnsson og Ninna Sif Svavarsdóttir.

Þá hefur Svavar Alfreð Jónsson einnig verið nefndur en gefið óskýr svör um hvort hann taki við tilnefningum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×