Handbolti

Vaknaði og hafði misst þrjá­tíu prósent vöðva sinna

Sindri Sverrisson skrifar
Stefan Dodic vann brons með U20-liði Serba á EM fyrir tveimur árum, og var valinn besti leikmaður mótsins.
Stefan Dodic vann brons með U20-liði Serba á EM fyrir tveimur árum, og var valinn besti leikmaður mótsins. Getty/Luka Stanz

Serbar eru í sjokki eftir óhugnanlegar fréttir af vonarstjörnu þeirra í handboltanum, Stefan Dodic, sem fyrir tveimur árum var valinn besti leikmaður Evrópumóts U20-landsliða.

Dodic gat ekki mætt Íslendingum á EM í Þýskalandi í janúar vegna meiðsla í hné. Nú hafa hins vegar mun alvarlegri fréttir borist af þessum tvítuga leikmanni og óttast er að ferli hans gæti mögulega verið lokið.

Þjálfari Dodic hjá serbneska liðinu Vojvodina greindi nefnilega frá því að Dodic hefði, með óútskýrðum hætti, misst 30% af vöðvamassa sínum á einni nóttu.

„Ég veit ekki hvað verður um hann og hans feril,“ sagði þjálfarinn Boris Rojevic, við Zurnal.rs, og var greinilega í sjokki enda virðist ekkert vitað um hvað kom fyrir Dodic.

„Dodic vaknaði bara og var búinn að missa vöðva. Enginn veit af hverju. Hann missti þrjátíu prósent vöðva sinna. Ég er í sjokki, órólegur og sorgmæddur alla daga. Ég held að þessi strákur hefði orðið fulltrúi landsliðsins og Vojvodina næstu árin,“ sagði Rojevic og bætti við:

„Ég fékk áfall þegar styrktarþjálfarinn sagði mér þetta. En ég veit að allir hjá félaginu munu gera allt, og heimsækja alla lækna um alla Evrópu, til að fá greiningu á þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×