Tíska og hönnun

Fyrir­sæta fyrir tískurisa er­lendis en lög­fræðingur hér heima

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Fyrirsætan og lögfræðingurinn Kristín Lilja sat nýverið fyrir hjá tískurisanum Liberty London.
Fyrirsætan og lögfræðingurinn Kristín Lilja sat nýverið fyrir hjá tískurisanum Liberty London. Aðsend

Fyrirsætan og lögfræðingurinn Kristín Lilja Sigurðardóttir hefur gengið tískupalla fyrir hátískumerki á borð við Dior og Kenzo og setið fyrir í ýmsum tískuherferðum. Nýverið var hún í ljósmyndaþætti fyrir virta tískumerkið Liberty London en blaðamaður tók púlsinn á henni og fékk að heyra nánar frá.

Ef Instagram færslurnar birtast ekki er ráð að endurhlaða (e. refresh) síðunni.

Stendur klárlega upp úr að módelast með syni sínum

Kristín Lilja þekkir vel til í bransanum og hefur unnið með fjöldanum öllum af áhugaverðu fólki. Aðspurð hvernig Liberty verkefnið kom til svarar hún:

„Liberty vildi taka upp tískuþátt á Íslandi en ég hef ég unnið með ljósmyndaranum úr tökunum, Ina Lekiewicz, áður bæði hér heima og erlendis.

Hún tók til dæmis myndirnar fyrir Zara myndatöku sem ég var í þar sem ég sat fyrir með Andra syni mínum og Maríu bróðurdóttur minni. Sú myndataka stendur klárlega upp úr enda gaman að draga fjölskylduna inn í fyrirsætuferilinn.“

Þó það sé alltaf áhugavert að ferðast til framandi staða segir hún þó alltaf extra skemmtilegt þegar tökurnar eru hérlendis.

„Það er alltaf gaman að fá að sitja fyrir stór tískuhús og hvað þá þegar myndatakan fer fram í náttúrunni hérna heima.“

Hér má sjá nokkrar myndir af Kristínu Lilju úr Liberty herferðinni:

Útilokar ekki að fara aftur út

Kristín Lilja hefur verið í módel bransanum lengi.

„Ég bjó áður erlendis og starfaði þar í fullu starfi sem fyrirsæta en eins og er þá er ég búsett hérna á Íslandi þar sem ég starfa sem lögfræðingur. 

Það kallar þó alltaf á mig að fara aftur út en það er aðeins flóknara þegar maður er komin með barn og svona hérna heima. Hins vegar útiloka ég ekki að fara aftur út og fer mögulega eitthvað í sumar að sitja fyrir.“

En hvaða verkefni ætli standi upp úr?

„Með uppáhalds myndatökunum sem ég hef farið í er Moncler herferð sem ég tók þátt í ítölsku ölpunum, Bottega Veneta myndataka sem ég var í og svo auðvitað Zara. Síðan er alltaf gaman að sitja fyrir íslensku merkin enda á Ísland svo mikið af flottum hönnuðum,“ segir Kristín Lilja að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×