Íslenski boltinn

KSÍ hvetur fé­lög að passa það að konurnar fái líka að mæta á þingið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir er að hætta sem formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir er að hætta sem formaður KSÍ. Vísir/Hulda Margrét

Ársþing Knattspyrnusambands Íslands fer fram seinna í þessum mánuði og sambandið telur ástæðu til þess að hvetja félög sína til að huga að kynjaskiptingu við val sitt á þingfulltrúum.

Ástæðan er að konur hafa verið í miklum minnihluta á síðustu ársþingum sambandsins. Staðan er að lagast en það má gera miklu betur.

Á ársþingi KSÍ árið 2022 að Ásvöllum í Hafnarfirði voru konur aðeins 20 prósent þingfulltrúa en á þinginu á Ísafirði í fyrra var hlutfallið 28 prósent. Alls eiga 148 fulltrúar frá aðildarfélögum KSÍ rétt á þingsetu á komandi þingi.

Það jákvæða við það var að í tvö ár í röð var veruleg fjölgun kvenna sem voru þingfulltrúar og fá aðildarfélög hrós frá KSÍ fyrir það.

Í átaksverkefni KSÍ "Konur í fótbolta" kom fram að þriðjungur skráðra knattspyrnuiðkenda (leikmanna) á Íslandi er kvenkyns en þegar kemur að öðrum hlutverkum í knattspyrnuhreyfingunni er hlutfall kvenna mun lægra.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem KSÍ hvetur aðildarfélög sín til að leyfa konunum líka að koma á þingið og sambandið sér árangur í þeirri baráttu.

„Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá að kvenkyns þingfulltrúum á knattspyrnuþingum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu árin eftir árlega hvatningu frá forystu KSÍ til aðildarfélaga um að huga að kynjaskiptingu sinna fulltrúa á ársþingum, segir í frétt á heimasíðu KSÍ.

Stjórn KSÍ hvetur þar aðildarfélög til að huga áfram vel og vandlega að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum fyrir 78. ársþing KSÍ, sem fram fer þann 24. febrúar næstkomandi í íþróttamiðstöð Fram í Úlfarsárdal, Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×