Fótbolti

Ís­lensku strákarnir spila á Wembley í júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Englendingum í vináttulandsleik rétt fyrir Evrópumótið í Þýskalandi í sumar.

Leikur Englands og Íslands verður spilaður á Wembley-leikvanginum 7. júní. Þetta verður aðeins í annað skiptið sem íslensku strákarnir spila á þessum heimsþekkta leikvangi.

Leikurinn er hluti af undirbúningi enska liðsins fyrir lokakeppni EM í Þýskalandi. Enska liðið hefur tryggt sér sæti á mótinu og Ísland gæti verið þar líka gangi allt upp í mars.

Íslenska liðið mætir Ísrael í fyrri umspilsleik um sæti í lokakeppni EM 2024 þann 21. mars. Sigurvegarinn í þeim leik mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu 26. mars í úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM 2024 í sumar.

Ísland og England hafa mæst fimm sinnum áður í A-landsliðum karla og þar af einu sinni áður á Wembley. Ísland hefur unnið einn leik, en það var þegar liðin mættust í lokakeppni EM 2016 í Frakklandi.

Jafntefli varð niðurstaðan í fyrstu viðureign liðanna, á Laugardalsvelli í júní 1982. Síðustu tveir leikir liðanna voru í Þjóðadeildinni árið 2020, en þar unnu Englendingar báða leikina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×