Fótbolti

Sakaður um brot gegn tveimur konum og yfir­gaf mótið

Sindri Sverrisson skrifar
Junya Ito spilaði þrjá leiki á Asíumótinu en hefur lokið keppni.
Junya Ito spilaði þrjá leiki á Asíumótinu en hefur lokið keppni. Getty/Lintao Zhang

Japanski landsliðsmaðurinn Junya Ito hefur yfirgefið Asíumótið í fótbolta sem nú stendur yfir í Katar, í kjölfar ásakana um kynferðisbrot gegn tveimur konum.

Brotin eiga að hafa átt sér stað á hótelherbergi í Osaka í Japan, í júní á síðasta ári, eftir leik Japan við Perú. Ito neitar sök og segir lögfræðingur hans að ásakanirnar haldi engu vatni, þó að Ito hafi vissulega varið tíma með konunum tveimur. Þær hafi verið kærðar fyrir rangar sakargiftir.

Fréttir af málinu birtust fyrst í Daily Shincho á miðvikudag, nokkrum klukkustundum áður en Japan mætti Barein í 16-liða úrslitum Asíumótsins.

Ito hafði spilað alla þrjá leiki Japan fram að því á mótinu en þessi þrítugi sóknarmaður sat hins vegar á varamannabekknum allan leikinn gegn Barein. Nú er ljóst að hann tekur ekki frekari þátt í mótinu en Japan vann leikinn 3-1 og er komið í 8-liða úrslit.

Þjálfari Japan, Hajime Moriyasu, sagði við fréttamenn eftir leikinn að hann vildi kynna sér málið frekar áður en hann tækist á við það.

Japanska knattspyrnusambandið tilkynnti svo í dag að Ito, sem er leikmaður Reims í Frakklandi, færi heim af mótinu. Sagði sambandið að gæta þyrfti ítrustu varkárni og að ákvörðunin væri tekin með líkamlega og andlega heilsu Ito í huga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×