Körfubolti

Tjáir sig um „lúserakúltúrinn“ hjá liði Jordans: „Í DNA-inu að tapa“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Jordan, eigandi Charlotte Hornets, og Terry Rozier, fyrrverandi leikmaður liðsins.
Michael Jordan, eigandi Charlotte Hornets, og Terry Rozier, fyrrverandi leikmaður liðsins. getty/Jacob Kupferman

Bandaríski körfuboltamaðurinn Terry Rozier, sem er nýgenginn í raðir Miami Heat frá Charlotte Hornets, segir mikinn mun á hugsunarhættinum hjá liðunum tveimur.

Rozier lék í rúm fjögur ár með Charlotte sem hefur verið eitt lélegasta lið NBA-deildarinnar undanfarin ár. Charlotte er í eigu Michaels Jordan.

„Þetta er algjör andstæða,“ sagði Rozier er hann var spurður út í muninn á Miami og Charlotte.

„Í Charlotte ertu eiginlega vanur að tapa. Það er í DNA-inu. Hérna er þetta allt öðruvísi. Enginn vill tapa. Enginn er sáttur við það. Þetta er ekkert leyndarmál. Allir vita muninn á sumum liðum í deildinni.“

Ummæli Roziers eru þó smá kaldhæðnisleg í ljósi þess að Miami hefur tapað sjö leikjum í röð. Þetta er versta taphrina liðsins síðan 2008. 

Miami er í 7. sæti Austurdeildarinnar en Charlotte í því þrettánda. Liðið hefur tapað fjórum leikjum í röð og einungis unnið þrjá af síðustu 25 leikjum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×