Körfubolti

Fyrsta ein­vígi karls og konu í þriggja stiga keppni Stjörnuleiks NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og Sabrina Ionescu eru bæði svakalega þriggja stiga skyttur og þau eru klár í slaginn í þriggja stiga keppni stjörnuleiksins.
Stephen Curry og Sabrina Ionescu eru bæði svakalega þriggja stiga skyttur og þau eru klár í slaginn í þriggja stiga keppni stjörnuleiksins. @NBA

Stórskytturnar Stephen Curry og Sabrina Ionescu munu mætast í sögulegri þriggja stiga keppni á Stjörnuhelgi NBA deildarinnar í körfubolta.

Þetta verður í fyrsta sinn sem leikmaður úr NBA mætir leikmanni úr WNBA i slíkri keppni. Stjörnuhelgi NBA fer fram 16. til 18. febrúar næstkomandi í Indianapolis.

Reglurnar hjá Steph og Sabrinu verða eins og í hefðbundni þriggja stiga keppni. Þau taka fimm skot frá fimm stöðum.

Á fjórum stöðum verða fjórir venjulegir boltar og einn peningabolti. Fimmti staðurinn verður síðan með fimm peningaboltum. Þau fá bæði að velja hvaðan þau skjóta á þessum fimmta stað.

Að lokum fá þau tvö stjörnuskot af lengra færi. Venjulegur bolti hefur eitt stig, peningaboltinn gefur tvö stig og stjörnuskotið gefur þrjú stig.

Steph Curry skýtur með NBA bolta frá NBA línunni en Sabrina Ionescu skýtur frá WNBA línunni með WNBA bolta. Ionescu tísti þó um það að hún ætlaði líka að skjóta frá NBA línunni.

Curry hefur skorað 3577 þriggja stiga körfur í deildarleikjum í NBA eða fleiri en nokkur annar í sögunni. Hann er með 43 prósent nýtingu og 3,9 þrista að meðaltali í leik.

Ionescu hefur skorað 272 þrista í 105 leikjum sínum í WNBA en hún er með 38 prósent nýtingu og 2,6 þrista að meðaltali í leik.

Curry hefur tvisvar unnið þriggja stiga keppni stjörnuleiks NBA, fyrst árið 2015 og svo aftur árið 2021.

Ionescu vann þriggja stiga keppni WNBA stjörnuleiksins á síðasta ári. Hún gerði meira en að því hún sló stigametið með því að hitta úr 25 af 27 skotum sínum. Það má sjá þessa skotsýningu hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×