Skoðun

Vinnan göfgar manninn

Tómas A. Tómasson skrifar

Við Íslendingar höfum lengi upplifa skort á vinnuafli á hjúkrunarheimilum, í leikskólum og í þjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Einnig hefur verið skortur á vinnuafli í mörgum greinum efnahagslífsins svo sem í ferðaþjónustunni, veitingageiranum og byggingariðnaðinum. Í þessu ástandi er eðlilegt að fólk spyrji, hvað er hægt að gera? Fyrsta skrefið er að afnema reglur sem refsa fólki fyrir atvinnuþátttöku.

Ein helsta hindrunin í vegi námsmanna eru reglur Menntasjóðs um skerðingar á framfærslulánum vegna tekna námsmanna. Hafi námsmaður tekjur umfram frítekjumörk skerðist framfærsla frá Menntasjóði verulega. Þetta er sérlega íþyngjandi í ljósi þess að framfærsla Menntasjóðs er svo lág að hún dugar ekki ein og sér til að greiða fyrir fæði, klæði og húsnæði.

Ég hef þrisvar sinum lagt fram frumvarp um afnám þessara skerðinga. Í hvert sinn hefur málið verið „svæft í nefnd“. Það er að segja þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hleypa málinu ekki úr nefnd og til atkvæðagreiðslu. Skerðingar vegna atvinnutekna námsmanna eru ákveðnar í reglugerð. Ráðherra málaflokksins, Áslaug Arna, gæti afnumið þessar skerðingar með því að breyta reglugerðinni. Það mætti gera svo gott sem með einu pennastriki! Því miður virðist ráðherrann ekki hafa áhuga á slíkri breytingu.

Það kemur mér sífellt á óvart að sitjandi ríkisstjórn skuli vera mótfallin þessari breytingu. Varla er það svo að atvinnuþátttaka námsmanna sé samfélaginu skaðleg. Þvert á móti skapa þeir verðmæti með vinnu sinni.

Fólkið fyrst, svo allt hitt! Áfram veginn.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×