Fótbolti

Tvær víta­spyrnur í súginn hjá AC Milan og Juventus mis­steig sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Oliver Giroud brenndi af vítaspyrnu.
Oliver Giroud brenndi af vítaspyrnu. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Tvær vítaspyrnur fóru forgörðum hjá AC Milan þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Bologna á heimavelli Í Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Þá gerði Juventus aðeins jafntefli við Empoli en Juventus var manni færri lungann úr leiknum.

Í Mílanó kom hinn eftirsótti Joshua Zirkzee gestunum í Bologna yfir eftir rétt tæpan hálftíma. Þjálfari Bologna, Thiago Motta, lét svo senda sig upp í stúku á 41. mínútu en hann var ósáttur með vítaspyrnu sem AC Milan fékk.

Lætin í Motta voru nægileg til að Oliver Giroud brenndi af en Lukasz Skorupski varði frá franska framherjanum. Staðan var hins vegar jöfn í hálfleik eftir að Davide Calabria fann Ruben Loftus-Cheek inn á vítateig og Englendingurinn þrumaði boltanum í hornið niðri, staðan 1-1 í hálfleik.

Þegar rétt rúmlega stundarfjórðungur var til leiksloka fékk AC Milan aðra vítaspyrnu. Að þessu sinni fór Theo Hernandez, samlandi Giroud, á punktinn en skot hans hafnaði í stönginni og staðan því enn 1-1.

Aftur virtist Loftus-Cheek ætla að koma AC Milan til bjargar en hann stangaði fyrirgjöf Alessandro Florenzi í netið á 83. mínútu. Í uppbótartíma fengu gestirnir hins vegar vítaspyrnu eftir að myndbandsdómari leiksins hafði skoðað atvik þar sem Victor Kristansen féll til jarðar.

Riccardo Orsolini brást ekki bogalistin, jafnaði metin og tryggði Bologna stig en leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

Juventus tók á móti Empoli fyrr í kvöld og fékk framherjinn Arkadiusz Milik beint rautt spjald eftir stundarfjórðung fyrir slæma tæklingu. Staðan var markalaus í hálfleik en serbneski framherjinn Dušan Vlahović kom Juventus yfir snemma í síðari hálfleik.

Þegar tuttugu mínútur lifðu leiks nýttu gestirnir sér það að vera einum fleiri og jafnaði Tommaso Baldanzi metin, staðan orðin 1-1 og það reyndust lokatölur.

Juventus er áfram á toppi deildarinnar en aðeins eru tvö stig í Inter sem á tvo leiki til góða. Juventus með 53 en Inter 51. AC Milan er svo í 3. sæti með 46 stig eftir að hafa leikið tveimur leikjum meira en Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×