Handbolti

Hollendingar hjálpuðu okkur ekkert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rutger ten Velde skorar fyrir hollenska liðið í dag. Hann var markahæstur í liðinu með sjö mörk.
Rutger ten Velde skorar fyrir hollenska liðið í dag. Hann var markahæstur í liðinu með sjö mörk. Getty/Christian Charisius

Holland og Portúgal gerðu 33-33 jafntefli í lokaleik sínum í milliriðli eitt á Evrópumótinu í handbolta í Þýskalandi. Það hefði verið gott fyrir Ísland ef hollenska liðið hefði unnið leikinn.

Ísland hefði mögulega getað komist upp fyrir Portúgal í baráttunni um sæti í Ólympíuumspilinu ef portúgalska liðið hefði tapað leiknum.

Hollendingar voru ekkert langt frá því að vinna leikinn. Þeir misstu niður forskot sitt á lokakafla leiksins en náðu á endanum að tryggja sér jafntefli. Þar með endar Portúgal með fimm stig, stigi meira en Ísland getur í mesta lagi náð úr þessu. Holland náði í sitt fyrsta og eina stig og endar neðst í milliriðli 2.

Portúgal fékk lokasóknina en tókst ekki að nýta sér hana. Portúgalar vildu frá vítakast en dómararnir voru ekki á því eftir að hafa skoðað atvikið vel og lengi í skjánum.

Portúgal hefði tryggt sér sæti í Ólympíuumspilinu og í leiknum um fimmta sætið með sigri en þarf nú að bíða eftir úrslitunum úr leik Slóvena og Dana. Slóvenar þurfa að vinna þann leik til að komast upp fyrir Portúgal.

Danir og Svíar höfðu, fyrir lokaumferðina, tryggt sér efstu tvö sætin í milliriðlinum og þar með sæti í undanúrslitunum.

Hollenska liðið var með frumkvæðið nær allan leikinn. Liðið leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 17-15, og náði nokkrum sinnum þriggja marka forskoti í seinni hálfleiknum.

Portúgal kom til baka og náði tveggja marka forskoti undir lokin en Hollendingarnir gáfust ekki upp og tókst að tryggja sér jafntefli.

Rutger ten Velde var markahæstur í hollenska liðinu með sjö mörk en hjá Portúgal skoruðu Martim Costa og Luís Frade báðir átta mörk. Diogo Rema Marques varði fimmtán skot í marki Portúgals og var valinn maður leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×