Innlent

At­riði í kirkju­garði klippt úr þættinum

Boði Logason skrifar
Eva Georgs. Ásudóttir er sjónvarpsstjóri Stöðvar 2.
Eva Georgs. Ásudóttir er sjónvarpsstjóri Stöðvar 2. Eyþór

Sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 segir að strax hafi verið brugðist við þegar hún var upplýst um að atriði við leiði Bergs Snæs í þáttum um Sigga hakkara væri í óþökk foreldra hans.

Í gær skrifuðu foreldrar Bergs Snæs grein á Vísis þar sem þeir meðal annars gagnrýna vinnubrögð danskra framleiðenda á þáttum um Sigga hakkara sem eru sýndir á Stöð 2. 

Foreldrarnir segjast hafa verið upplýstir um gerð þáttanna en þeir hafi ekki verið unnir í sátt eða samvinnu við þá. Framleiðendur hafi fullyrt að þeir hafi tekið tillit til óska þeirra en upplýstu ekki um að Sigurður fari að leiði sonar þeirra í þriðja þætti.

Eva Georgs. Ásudóttir, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, segir í yfirlýsingu að strax hafi verið brugðist við þegar grein foreldranna birtist og þátturinn tekinn úr sýningu.

„Okkar trú var að þættirnir væru unnir í samvinnu og sátt við fjölskylduna. Félaginu þykir virkilega leitt að vinnubrögð framleiðenda hafi verið með þessum hætti. Þátturinn sem um ræðir hefur verið tekinn úr birtingu og verður ekki settur aftur í birtingu fyrr en atriðið við leiðið hefur verið klippt út. Framleiðendur þáttanna vinna nú að því í framhaldi af eindregnum tilmælum okkar.,“ segir Eva.

Vísir og Stöð 2 eru í eigu Sýnar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×