Handbolti

Skilur ekki af hverju Haukur hefur ekki verið notaður meira

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson átti eftirminnilega innkomu gegn Frökkum.
Haukur Þrastarson átti eftirminnilega innkomu gegn Frökkum. vísir/vilhelm

Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handbolta, furðar sig á af hverju Haukur Þrastarson hefur ekki spilað meira á Evrópumótinu í Þýskalandi.

Haukur átti stórgóða innkomu þegar Ísland tapaði fyrir Frakklandi, 39-32, í öðrum leik sínum í milliriðli 1 á laugardaginn. Hann skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar á þeim sextán mínútum sem hann spilaði.

Hreiðar og Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, fóru yfir leik Íslands og Frakklands í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar, ásamt Stefáni Árna Pálssyni.

Haukur kom aðeins við sögu í leiknum gegn Ungverjalandi en hafði annars ekkert spilað á EM fyrr en gegn Frakklandi. Stefán Árni spurði þá Hreiðar og Bjarna hverju það sætti.

„Ég held að hann sé að koma alltof seint inn, ef ég á vera alveg hreinskilinn,“ sagði Hreiðar.

Bjarni tók upp hanskann fyrir landsliðsþjálfarann Snorra Stein Guðjónsson.

„Þú veist samt ekkert, komandi inn í mótið, hvað muni gerast,“ sagði Bjarni en Hreiðar gaf sig ekki. „Við erum í fimmta leik og allir leikirnir eru búnir að vera svolítið keimlíkir,“ sagði markvörðurinn fyrrverandi.

Bjarni benti líka á að Haukur væri að koma til baka eftir mjög erfið meiðsli en Selfyssingurinn hefur slitið krossband í báðum hnjám á undanförnum árum.

Ísland mætir Króatíu í þriðja leik sínum í milliriðli 1 í dag og verður að vinna ef liðið ætlar sér að komast í forkeppni Ólympíuleikanna. Leikurinn hefst klukkan 14:30.

Þáttinn má heyra í spilaranum að ofan. Besta sætið er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.a.m. á Spotify hér. Hver einasti leikur Íslands á EM verður gerður upp af sérfræðingum í Besta sætinu.


Tengdar fréttir

Besta sætið: „Ég er ekki að sjá eitthvað lið“

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, ákvað að skafa ekki af hlutunum þegar hann ræddi sjö marka tap Íslands gegn Ólympíumeisturum Frakklands á EM karla í handbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×