Erlent

Sam­komu­lag í höfn um aukna mann­úðar­að­stoð á Gasa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Gasa ströndinni í dag. Palestínumenn segja 85 prósent íbúa nú vera á vergangi vegna árása Ísraelsmanna.
Frá Gasa ströndinni í dag. Palestínumenn segja 85 prósent íbúa nú vera á vergangi vegna árása Ísraelsmanna. AP Photo/Adel Hana

Ísrael og Hamas hafa náð samkomulagi um aukið innflæði hjálpargagna til Gasa. Þetta segja katörsk yfirvöld sem hýst hafa viðræðurnar auk Frakka.

Fram kemur í umfjöllun BBC að skilmálar samkomulagsins séu þeir að gíslar sem enn eru í haldi Hamas liða muni fá lyf. Þess í stað munu Ísraelsmenn hleypa fleiri vistum inn á Gasa.

Yfir 24 þúsund manns hafa látið lífið í árásum Ísraelshers á Gasa ströndinni. Að sögn Palestínumanna er yfirgnæfandi meirihlutinn í þeim hópi konur og börn. Þá segja þeir 85 prósent íbúa á Gasa nú heimilislausa vegna árásanna.

Hamas liðar tóku 240 gísla í árásum þeirra í suðurhluta Ísrael þann 7. október síðastliðinn. Rúmlega 1300 manns létust í þeim árásum. Talið er að enn séu 132 gíslar í haldi samtakanna á Gasa.

Fram kemur í umfjöllun BBC að alþjóðlegur þrýstingur á Ísraelsmenn um að láta af árásum sínum aukist dag frá degi. Áður hefur Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagt að of margir almennir borgarar hafi látið lífið á Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×