Innlent

Þriggja bíla á­rekstur við Hvalfjarðarveg

Lovísa Arnardóttir skrifar
 Nokkur bílaröð myndaðist vegna slyssins í morgun. 
 Nokkur bílaröð myndaðist vegna slyssins í morgun.  Vísir/RAX

Ásmundur Kristinn Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi segir enn unnið á vettvangi alvarlegs umferðarslyss við gatnamót Hvalfjarðarvegar og Hringvegar í morgun. Þar skullu saman þrjú ökutæki, tvö stærri ökutæki og einn fólksbíll.

Slasaðir hafa allir verið fluttir af vettvangi en lögregla og rannsóknarnefnd samgönguslysa vinna enn á vettvangi.

Ásmundur segir ómögulegt að vita hvenær vegurinn verður opnaður á ný en að það verði ekki gert fyrr en vinnu er lokið. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, að hjáleið sé um Hvalfjörð.

„Það var alvarlegt slys, þetta voru þrjú ökutæki og það voru aðilar fluttir á sjúkrahús. Það er enn unnið á vettvangi,“ segir Ásmundur og að rannsóknardeild Lögreglunnar á Vesturlandi og allt tiltækt lið hafi verið sent á vettvang þegar tilkynning um slysið barst í morgun. 

Hann segist ekki hafa upplýsingar um það hversu margir voru fluttir á slysadeild en segir að þegar hann hafi betri upplýsingar muni lögreglan birta tilkynningu um slysið á bæði heimasíðu lögreglunnar og á Facebook-síðu þeirra. Fram kom í frétt Vísis um slysið í morgun að þrír hafi alls verið fluttir á slysdeild. Einn úr flutningabíl og tveir úr fólksbíl. Það staðfesti Jens Heiðar Ragnarsson en hann er slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Spurður um aðstæður á veginum segir Ásmundur að nú snjói en að það hafi ekki verið þannig í morgun þegar slysið átti sér stað. Þá viti hann ekki hvort það hafi verið hálka.

„Ég á eftir að fá allar upplýsingar frá rannsakendum.“

UPPFÆRT

Búið er að opna hringveginn aftur. Það var gert rétt fyrir klukkan 14 í dag. 

Fréttin var uppfærð klukkan 14:07 þann 16.1.2024. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×