Handbolti

„Kom ekkert annað til greina en sigur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron fagnar að leik loknum.
Aron fagnar að leik loknum. Vísir/Vilhelm

„Fannst við sundurspila þá bróðurpartinn af leiknum. Klikkuðum hins vegar á of mikið af dauðafærum,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði Íslands, eftir hádramatískan eins marks sigur á Svartfjallalandi á EM í handbolta.

Eftir vægast sagt dramatískan leik gegn Serbíu þar sem Ísland bjargaði stigi á ótrúlegan hátt þá var leikur dagsins engu minna dramatískur. Að þessu sinni hafði Ísland þó betur sem þýðir að það er úrslitaleikur við Ungverjaland á þriðjudag um toppsæti riðilsins.

„Teygðum betur á þeim en í síðasta leik, létum boltann líka ganga betur. Fengum fullt af færum úr hornunum og fannst við eiga skilið að vera með stærri forystu í hálfleik. Fínasta lið og drullugóður markvörður en mér finnst við þó töluvert betri,“ sagði Aron en Ísland leiddi með tveimur mörkum í hléinu.

Vantar drápseðli í íslenska liðið?

„Er þetta ekki skemmtilegra svona,“ spurði Aron kíminn áður en alvaran tók við.

„Í stöðunni 10-5 erum við að klikka á dauðafærum. Erum samt með töluvert færri tæknifeila en í síðasta leik myndi ég halda Spilum okkur í góð færi, bæði á sex metrum og fyrir skytturnar. Markamaðurinn drullu góður, þeir gerðu ágætlega til baka og við fengum ekki mikið af hraðaupphlaupsmörkum en ég er sáttur með tvö stig.“

„Heldur betur,“ sagði Aron aðspurður hvort það væri þungu fargi af sér létt.

„Hugsaði ekki út í það að við myndum tapa þessum leik þegar staðan var jöfn undir lokin. Kom ekkert annað til greina en sigur.“

Klippa: Viðtal við Aron eftir leik við Svartfjallaland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×