Handbolti

Fimm þúsund Fær­eyingar sáu sína menn tapa fyrsta leik naum­lega

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Færeyingar þakka fyrir stuðninginn en sagan segir að fimm þúsund Færeyingar hafi fylgt liðinu til Þýskalands.
Færeyingar þakka fyrir stuðninginn en sagan segir að fimm þúsund Færeyingar hafi fylgt liðinu til Þýskalands. EPA-EFE/CLEMENS BILAN

Slóvenía lagði Færeyjar með þriggja marka mun, 32-29, þegar liðin mættust í fyrsta leik D-riðils á Evrópumóti karla í handbolta sem nú fer fram. Holland vann Georgíu og Portúgal lagði Grikkland.

Leikur Slóveníu og Færeyjar var einkar jafn framan af, svo jafn að staðan var jöfn 13-13 í hálfleik. Færeyingar komust tveimur mörkum yfir í upphafi síðari hálfleiks en eftir það náðu Slóvenar öllum völdum á vellinum, skoruðu fjögur mörk í röð og þá var ekki aftur snúið.

Fór það svo að Slóvenía vann þriggja marka sigur, lokatölur 32-29. Elias Ellefsen á Skipagøtu var markahæstur á vellinum með 9 mörk. Aleks Vlah var markahæstur í liði Slóveníu með 8 mörk. Hákun West Av Teigum skoraði einnig 8 mörk í liði Færeyja.

Í E-riðli vann Holland fimm marka sigur á Georgíu, lokatölur 34-29. Í F-riðli vann Portúgal sjö marka sigur á Grikklandi, lokatölur 31-24. 

Síðar í kvöld klárast 1. umferð í þessum riðlum. Noregur mætir Póllandi í D-riðli, Svíþjóð mætir Bosníu & Hersegóvínu í E-riðli og Danmörk mætir Tékklandi í F-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×