Sport

Belichick hættir að þjálfa New Eng­land Patriots

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady og Bill Belichick voru nánast óstöðvandi saman hjá New England Patriots.
Tom Brady og Bill Belichick voru nánast óstöðvandi saman hjá New England Patriots. Getty

Næstum því aldarfjórðungs langri þjálfaratíð Bill Belichick hjá New England Patriots er á enda. Bandarískir fjölmiðlar segja að hann hafi stýrt liðinu í síðasta skiptið.

Belichick hefur fundað margoft með Robert Kraft, eiganda New England Patriots, í vikunni þar sem farið var yfir næstu skref. Þeir sættust á það að enda samstarfið núna.

Belichick var að klára 24. tímabilið sitt með liðið en það gekk ekki vel hjá Patriots í vetur. Belichick átti samt eitt ár eftir af samningi sínum en fær nú að yfirgefa félagið án þess að Patriots sækist eftir einhverjum bætum fyrir.

Belichick er einn allra besti þjálfari allra tíma og gerði Patriots sex sinnum að NFL meisturum sem er met. Hann vantar enn 26 sigurleiki í það að hafa unnið þá flesta í sögu deildarinnar og mun væntanlega reyna að finna sér nýtt þjálfarastarf. Það eru mörg á lausu og því líklegt að eitthvað af þeim félögum veðji á þessa goðsögn.

Patriots mun hins vegar hefja þjálfaraleit í fyrsta sinn í næstum því aldarfjórðung en líklegastur til að fá starfið er Jerod Mayo, sem var varnarlínuþjálfari liðsins undir stjórn Belichick.

Belichick tók við starfinu hjá Patrios af Pete Carroll árið 2000. Carroll hætti einmitt með Seattle Seahawks liðið fyrir nokkrum dögum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×