Handbolti

Metfjöldi sá Sviss steinliggja fyrir Þjóð­verjum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alfreð Gíslason fagnar marki ásamt þýskum lærisveinum sínum
Alfreð Gíslason fagnar marki ásamt þýskum lærisveinum sínum Christof Koepsel/Getty Images)

Gestgjafaþjóð Evrópumótsins í handbolta, Þýskaland, fór létt með sinn fyrsta leik gegn Sviss á Merkur Spiel-Arena í Düsseldorf í kvöld. Heimamenn unnu öruggan þrettán marka sigur, 27-14. 

Metfjöldi gerði sér leið á leikinn, aldrei hafa eins margir verið samankomnir til að horfa á handbolta en alls voru 53.586 manns á Merkur-Spiel Arena í kvöld. 

Það sást fljótt í hvað stefndi, yfirburðir Þýskalands voru algjörir í fyrri hálfleiknum, snemma í seinni hálfleik skoruðu Þjóðverjar svo átta mörk í röð og gerðu algjörlega útaf við vonir Svisslendinga. 

Andreas Wolff átti stórleik í marki heimamanna og varði 11 af 17 skotum í fyrri hálfleik, hann endaði leikinn með 61,5% markvörslu, 16 varin skot af 26. 

Patrick Groetzki, hægri hornamaður þýska landsliðsins, var utan hóps í kvöld. Hann er einn reyndasti maður liðsins, hefur átt fast sæti í liðinu síðan 2009 en líkt og Vísir greindi frá fyrr í vikunni mun hann að öllum líkindum ekki taka þátt í mótinu.

Með Þýskalandi og Sviss í A-riðli mótsins eru Frakkland og Norður-Makedónía. Leik þeirra lauk með öruggum 39-29 sigri Frakklands fyrr í kvöld. Næsta umferð í þeirra riðli fer fram þann 14. janúar þar sem liðin spila á víxl. 


Tengdar fréttir

Dreymir um medalíu og líst vel á líkurnar

Kristján Örn Kristjánsson, eða Donni eins og hann er alla jafnan kallaður, gaf sig til tals við fréttamann eftir æfingu landsliðsins í München í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×