Fótbolti

Sjálfsmörk til skiptis í framlengdum leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dani Carjaval var hetja Real Madrid þegar hann skoraði jöfnunarmark á lokamínútunum og tryggði framlengingu.
Dani Carjaval var hetja Real Madrid þegar hann skoraði jöfnunarmark á lokamínútunum og tryggði framlengingu. Yasser Bakhsh/Getty Images

Nágrannaliðin Atleticó og Real Madrid mættust fjarri heimahögum sínum þegar liðin kepptu í undanúrslitaleik spænska ofurbikarsins, sem fór fram í Sádí-Arabíu. Real unnu að endingu 5-3 eftir framlengdan leik þar sem tvö sjálfsmörk voru skoruð. 

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur og fjögur mörk litu dagsins ljós. Mario Hermoso kom þeim rauðklæddu yfir á 7. mínútu leiksins, Antonio Rudiger jafnaði svo metin með skallamarki eftir hornspyrnu. Ferland Mendy færði hvítklæddum forystuna en Antoine Griezmann jafnaði metin á ný rétt fyrir hálfleikslok. 

Antonio Rudiger varð svo fyrir því óláni seint í seinni hálfleik að setja boltann í eigið net. Það kom ekki að sök, liðsfélagi hans Dani Carvajal setti boltann í rétt net og jafnaði fyrir Real Madrid. 

3-3 eftir venjulegan leiktíma, það þurfti því að kalla til framlengingar til að skilja liðin að. 

Aftur var skorað sjálfsmark, en í þetta skiptið hagnaðist Real Madrid þegar Stefan Savic setti boltann í eigið net. Brahim Díaz rak svo smiðshöggið á 120. mínútu og tryggði Madrídingum 5-3 sigur. Real Madrid er þar með komið í úrslitaleik Ofurbikarsins. Hinum megin í undanúrslitum mætast Barcelona og Osasuna, annað kvöld klukkan 19:00. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×