Fótbolti

Dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir að tala illa um dómara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Lopez fær langt bann fyrir orð sem féllu í hálfleik á leik í október.
David Lopez fær langt bann fyrir orð sem féllu í hálfleik á leik í október. Getty/Eric Alonso

Girona verður án varnarmannsins síns David Lopez í næstu leikjum en Girona er öllum að óvörum að berjast um spænska meistaratitilinn við Real Madrid.

Lopez hjálpar liðinu ekki mikið á næstunni því aganefnd spænska knattspyrnusambandsins hefur úrskurðað hann í fjögurra leikja bann. Bannið fær hann fyrir að tala illa um dómara.

Atvikið varð í hálfleik í 5-2 sigri Girona á móti Almeria 22. október síðastliðinn. Lopez sagði þá í sjónvarpsviðtali að Miguel Angel Ortiz Arias dómari bæri enga virðingu fyrir Girona og að hann smánaði liðið. Viðtalið var tekið við hann á leið til búningsklefa í hálfleik.

Lopez baðst seinna afsökunar á ummælum sínum og sagðist sjá eftir þeim.

Hann mun missa af deildarleikjum á móti Almeria og Sevilla sem og bikarleik á móti Rayo Vallecano.

Fjórði leikurinn verður síðan annað hvort bikarleikur eða annar deildarleikur.

Girona getur áfrýjað banninu á næstu tíu dögum.

Girona er í öðru sæti deildarinnar en með jafnmörg stig og topplið Real Madrid. Real er ofar á betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×