Körfubolti

Var ná­lægt því að hætta en Adam Sil­ver talaði hann af því

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Draymond Green var nálægt því að leggja skóna á hilluna.
Draymond Green var nálægt því að leggja skóna á hilluna. AP Photo/Nate Billings

Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfubolta, hefur viðurkennt að hann hafi næstum verið búinn að leggja skóna á hilluna eftir að hafa verið dæmdur í leikbann og misst af tólf leikjum.

Green hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið og virtist einkar illa fyrir kallaður fyrr á leiktíðinni. Hann fékk fimm leikja bann í nóvember fyrir að taka Rudy Gobert, leikmann Minnesota Timberwolves, hálstaki.

Hann var svo dæmdur í bann í byrjun desember og er nú snúinn aftur eftir að hafa misst af tólf leikjum. Þá missti Green af leikjum í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð eftir að hafa traðkað á bringu Domantas Sabonis, leikmanns Sacramento King.

Hinn 33 ára gamli Green skrifaði undir nýjan samning síðasta sumar upp á 100 milljónir Bandaríkjadala eða rúmlega 13 milljarða íslenskra króna. Leikbannið í desember varð til þess að Green varð af tæpum tveimur milljónum Bandaríkjadala eða rúmum 275 milljónum íslenskra króna.

Green hefur nú opinberað það að hann hafi verið nálægt því að hætta en Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar, talaði hann af því.

„Ég talaði við Adam Silver, framkvæmdastjóra deildarinnar. Ég sagði honum að þetta væri of mikið fyrir mig og ég ætlaði mér að hætta. Adam sagði mér að ég væri að taka ákvörðun í flýti og hann myndi ekki leyfa mér að gera það.“

„Við áttum langt og gott samtal. Það hjálpaði mér mikið og er ég mjög þakklátur að spila í deild sem er með framkvæmdastjóra eins og Adam,“ sagði Green í hlaðvarpinu sínu.

Green er með 9,7 stig, 5,5 fráköst og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×