Fótbolti

Tuchel í á­falli yfir hversu slæmt á­standið hjá Bayern var

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Tuchel tók við Bayern München 24. mars á síðasta ári.
Thomas Tuchel tók við Bayern München 24. mars á síðasta ári. getty/Marvin Ibo Guengoer

Thomas Tuchel var brugðið hversu slæmt andlegt og líkamlegt ásigkomulag leikmanna Bayern München var þegar hann tók við liðinu í fyrra.

Tuchel var ráðinn knattspyrnustjóri Bayern eftir að Julian Nagelsmann var látinn taka pokann sinn í mars á síðasta ári.

Bild greinir frá því að Tuchel hafi verið hissa á slæmu ásigkomulagi Bæjara, bæði andlegu og líkamlegu, og hversu illa samstilltur leikmannahópur liðsins var. Skýrasta og ýktasta dæmið um það var þegar Sadio Mané kýldi Leroy Sané í búningsklefa Bayern eftir 3-0 tap fyrir Manchester City í Meistaradeild Evrópu.

Undir stjórn Tuchels varð Bayern meistari í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar eftir mikið klúður Borussia Dortmund sem var með pálmann í höndunum. Bayern hefur orðið Þýskalandsmeistari ellefu sinnum í röð.

Bayern er núna í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen en á leik til góða. Næsti leikur Bayern er gegn Hoffenheim 12. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×