Innlent

Jakka­fötum og verk­færum stolið úr geymslum

Jakob Bjarnar skrifar
Skúli Jónsson stöðvarstjóri segir verð á þýfi oft í svo lítilli snertingu við veriðmætið að það sé með ólíkindum að fólk skuli leyfa sér að kaupa það.
Skúli Jónsson stöðvarstjóri segir verð á þýfi oft í svo lítilli snertingu við veriðmætið að það sé með ólíkindum að fólk skuli leyfa sér að kaupa það. vísir/vilhelm

Geymsla 1 er með aðstöðu á Gjáhellu á Völlunum í Hafnarfirði þar sem boðin eru upp á bil til leigu þar sem fólk getur geymt ýmislegt úr búslóð sinni. Í desembermánuði á síðasta ári lágu menn á því lúalaginu að brjótast þar inn og hafa eitt og annað með sér.

„Þetta var í byrjun desember aðallega og svo aftur 19. desember,“ segir Skúli Jónsson stöðvarstjóri hjá lögreglunni. Þar er málið til rannsóknar. „Þetta voru einhverjar tíu geymslur í það heila sem farið var í.“

Að sögn Skúla hefur einn aðili verið handtekinn vegna þessara innbrota en þá fannst þýfi við leit í bifreið; verkfæri og fatnaður. „Já, ég sá tvenn eða þrenn jakkaföt. Þetta var fullur fólksbíll. Við höfum verið að vinna að því að koma þessu út fyrir hátíðarnar og litið eftir hér,“ segir Skúli.

Samkvæmt ábendingu sem Vísir barst var hér um að ræða glæpagengi að erlendum uppruna en Skúli segist ekki geta staðfest neitt um það. „Það var sem sagt einn handtekinn og fleiri grunaðir.

Eins og geta má nærri var talsvert mál að koma þýfinu á réttan stað. Fólk vissi varla hvað það var sem það hafði komið fyrir í geymslum sínum. „En það virðist markaður fyrir þýfi af þessu tagi,“ segir Skúli. Hann segir verð á þessum hlutum oft ekki í neinu samræmi við virði þeirra og með ólíkindum að fólk skuli leyfa sér að kaupa þetta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×