Körfubolti

Í­þrótta­höll toppliðs í Frakk­land brann um jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Öll körfuboltahöllin brann til kaldra kola.
Öll körfuboltahöllin brann til kaldra kola. Skjámynd/@lequipe

BCM Gravelines-Dunkerque spilar í efstu deild í franska körfuboltanum en félagið er heimilislaust eftir jólahátíðina.

Ástæðan er að mikill eldur braust út í íþróttahöll félagsins og ekki tókst að bjarga húsinu. Hún brann til kaldra kola á jóladag.

Sportica höllin var ekki aðeins körfuboltahöll heldur íþróttamiðstöð og sundlaug bæjarins.

Það er talið að eldurinn hafi kviknað fyrst út frá rafmagni í sundlauginni áður en hann barst yfir í körfuboltahöllina.

Enginn slasaðist sem betur fer í brunanum en það mátti sjá rosalegar myndir og myndbönd af því þegar allt íþróttahúsið var í björtu báli.

Íþróttahöllin var byggð árið 1986 og tók þrjú þúsund manns á körfuboltaleikjum. Gravelines er ellefu þúsund manna bær í norður Frakklandi, við landamærin við Belgíu. Bærinn er meðal annars vinabær Fjarðabyggðar á Austurlandi.

Gravelines-Dunkerque skrifaði um eldinn á samfélagsmiðlum sínum.

„Það fer hrollur um mann að sjá þessa mynd þegar við minnumst allra gleðistundanna sem við höfum upplifað í þessu húsi,“ skrifaði félagið á samfélagsmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×