Innlent

Eitt snjó­flóðið féll fram hjá varnargarði og út á veg

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Á Siglufirði hefur kyngt niður snjó.
Á Siglufirði hefur kyngt niður snjó. Aðsend

Snjóflóð féllu í nótt á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Flóðin hafa ekki valdið neinu tjóni svo vitað sé. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að búast megi við fleiri flóðum þar til dregur úr veðri.

Minney Sigurðardóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir í samtali við Vísi að tilkynningar um snjóflóð á Eyrarhlíð og Kirkjubólshlíð hafa borist. Ekki séu upplýsingar um að fleiri flóð hafi orðið á Vestfjörðum. 

Þá hafi nokkur snjóflóð fallið á Norðurlandi. Það stærsta verið á Siglufjarðarvegi, þrír að stærð. Annað snjóflóð hafi fallið í Strengsgili og farið fram hjá varnargarði og út á veg. Þess vegna hafi óvissustig veðurstofunnar verið virkjað á Norðurlandi í morgun. 

Óvissustig er einnig í gildi á Vestfjörðum. Búist er við að það verði afnumið þegar dregur úr veðri, í kvöld eða á morgun.

 Frekari upplýsingar hefur veðurstofan ekki um flóðin meðan vegir eru lokaðir. Á vef veðurstofunnar má nálgast nánari upplýsingar um staðsetningu og umfang einstaka snjóflóða. 

Minney segir flóðin sem fallið hafa ekki ógna mannslífum en hefti samgöngur. Ekki sé vitað hvenær hægt sé að moka vegina og þeir opni að nýju. 

Allir helstu vegir á Vestfirði eru lokaðir vegna snjóflóðahættu, þar á meðal vegurinn milli Ísafjarðar og Súðavíkur, Flateyrarvegur og vegurinn milli Hnífsdals og Ísafjarðar. Nánari upplýsingar um veglokanir má nálgast á vefsíðu Vegagerðarinnar, umferdin.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×