Innlent

Tvær ferðamannarútur fuku út af veginum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Björgunarsveitir sinntu ýmsum verkefnum í kuldanum í dag.
Björgunarsveitir sinntu ýmsum verkefnum í kuldanum í dag. vísir/vilhelm

Tvær litlar ferðamannarútur, með tuttugu farþega innanborðs, fuku af Útnesvegi utarlega á Snæfellsnesi í kvöld. Björgunarsveitir höfðu nóg að gera í kuldanum í dag. 

Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að björgunarsveit af Snæfellsnesi hafi aðstoðað farþega rútanna sem komið var fyrir á Hótel Búðum. Atvikið átti sér stað klukkan átta í kvöld.

„Vindur hefur spilað inn í og það er glæruhálka þarna. Það er búið að koma annarri rútunni upp á veg,“ segir Jón Þór í samtali við Vísi. Önnur rútan fór verr úr slysinu og var nánast á hliðinni, segir Jón Þór. Enginn ferðamannanna slasaðist.

Fleiri verkefni komu á borð björgunarsveita. Í Siglufirði var björgunarsveit kölluð út vegna fjögurra bíla sem festust Fljótamegin við Strákagöng. „Einhver snjóflóð höfðu fallið þar og það er verið að ferja fólk úr bílunum inn á Siglufjörð. Það er leiðindaveður þarna“

Auk þessa aðstoðuðu björgunarsveitir austan Hellisheiðar fimm bílstjóra sem höfðu fest bíla sína á heiðinni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×