Innlent

And­stæðingar sjókvíaeldis æfir vegna á­kvörðunar Helga

Jakob Bjarnar skrifar
Forsíða og aðal efni Veiðimannsins fjallar um ókindina í íslenskri náttúru, sjókvíaeldið. Teikningin er eftir Gunnar Karlsson.
Forsíða og aðal efni Veiðimannsins fjallar um ókindina í íslenskri náttúru, sjókvíaeldið. Teikningin er eftir Gunnar Karlsson.

Á forsíðu nýs tölublaðs Veiðimannsins, tímariti Stangaveiðifélags Reykjavíkur, er mynd eftir Gunnar Karlsson þar sem sjókvíaeldið er teiknað upp sem ókindin í íslenskri náttúru. Niðurstaða Helga Jenssonar lögreglustjóra á Vestfjörðum, sú að fella niður rannsókn á slysasleppingum fyrir vestan, kemur illa við andstæðinga sjókvíaeldis.

„Já, við stígum fast til jarðar með þessu. Við vorum með skoðanakönnun hjá félagsmönnum og yfirgnæfandi meirihluti er á móti sjókvíaeldi. Við getum verið algjörlega á móti þessu,“ segir Ragnheiður Thorsteinsson, formaður SVFR um forsíðuna og meginefni Veiðimannsins.

Grafík úr forsíðufrétt Veiðimannsins. Þarna kemur í ljós hversu sláandi mikið eldið er á móti hinum villta laxastofni.

Greint var frá því fyrr í dag að Helgi Jensson lögreglustjóri á Vestfjörðum hafi hætt rannsókn á máli vegna slysasleppingar eldislax úr fiskeldisstöð í Kvígindisdal í Patreksfirði. Á fjórða þúsund kynþroska laxar sluppu og gengu upp í íslenskar laxveiðiár. Helgi segir ekki grundvöll til að halda rannsókninni áfram, gögn málsins beri ekki með sér að umbúnaður við kvína hafi verið áfátt vegna athafna og athafnaleysis.

Niðurstaðan gat ekki orðið önnur

Þessi ákvörðun Helga fellur í grýttan jarðveg meðal andstæðinga sjókvíaeldis sem telja einsýnt að sjókvíaeldismönnum sé nú fært að fara sínu fram og um þá sé slegin skaldborg af yfirvöldum.

„Í lögum um fiskeldi kemur fram að það varði framkvæmdastjóra og stjórnarmenn rekstrarleyfishafa sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, séu sakir miklar. Til dæmis ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldi hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi. Samt er lögreglan fyrir vestan að hætta rannsókn sinni,“ segir meðal annars í færslu á Icelandic Wildlife Fund.

Sú niðurstaða Helga að fella niður rannsóknina bendi til þess að „gáfulegra hefði verið að fela öðru lögreglustjóraembætti en heimamanna þessa rannsókn,“ segir jafnframt í pistli á Fb-síðu IWF.

„Þessir menn eru jarðvöðlar“

Ragnheiður tekur í sama streng. „Það var vitað hvernig færi um leið og þetta embætti fyrir vestan var látið rannsaka þetta. Ég skil hann vel. 

Ragnheiður Thorsteinsson er formaður SVFR og hún segir nú tíma til kominn að setja fótinn niður.aðsend

Fólk hefur mikla hagsmuna að gæta í þessu máli þarna fyrir vestan. Ég hef samúð með því fólki en þetta er skellur. Hver á til dæmis að borga fyrir þessa kafara sem voru hér í marga mánuði. Þetta er ekkert endirinn á þessu máli. 

Menn verða að bera ábyrgð á sínum gjörðum, það þurfa allir að gera. Þessir menn eru jarðvöðlar,“ segir Ragnheiður. Hún segist átakafælin og vilji forðast að vera herská en nú sé tímabært að setja fótinn niður.

Enn einn sem ekki er skemmt vegna þessarar niðurstöðu lögreglustjórans á Vestfjörðum er Jón Þór Ólason lektor í lagadeild við Háskóla Íslands en hann hefur kennt refsirétt í 23 ár. Jón Þór segir þetta galið og tímasetningin komi ekki á óvart, ákvörðunin hafi örugglega legið fyrir í nokkra daga en nú sé hún tilkynnt ofan í gosfréttir og korter í jól.

Röng niðurstaða

Jón Þór er standandi undrandi á niðurstöðu löggreglustjórans á Vestfjörðum. Hann telur hana beinlínis ranga.aðsend

Niðurstaða lögreglustjórans á Vestfjörðum varðandi slysasleppingu Artic Fish er ekki bara með hreinum ólíkindum heldur bæði efnislega og lögfræðilega röng,“ segir Jón Þór í samtali við Vísi.

Hann segir niðurstöðuna meðal annars rökstudda með þeim hætti að gögn málsins ekki beri með sér að umbúnaður við kvína hafi verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis sakbornings. Þá kemur jafnframt fram að lagaumhverfið í málum sem þessum sé erfitt og að lögin séu meira leiðbeinandi um starfsemina fremur en refsilög. 

„Eins og Vésteinn Vésteinsson mælti, „nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“. Vissulega er það svo að að lög um fiskeldi mættu vera skýrari, en þessi lagatúlkun nokkuð ný til skipaða lögreglustjóra taka út yfir allan þjófabálk og bera með sér hreint ótrúlega vanþekkingu á lögskýringum, svo ekki sé kveðið fastar að orði.“

Sleppingin hlýtur að varða refsingu

Jón Þór segir fiskeldislögin kveða á um tiltekna markmiðsskýringu, það er að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskistofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. 

Sjókvíar í Tálknafirði.Arnarlax

„Engum vafa er undirorpið að netapokaslysaslepping Artic Fish er efni í atriði í Áramótaskaupi RÚV – enda komu norskir froskmenn til landsins til að veiða hinn norska lax er slapp úr kvíunum. Umrædd sérrefsilög, sem lögreglustjórinn telur vera „leiðbeinandi“, kveða þó á um það að ef að eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði um fiskeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af gálsysis, þá varði það refsingum.“

Íslenska ríkið að kalla yfir sig skaðabótaskyldu

Jón Þór spyr hvað liggi fyrir í máli þessu?

„Í grunninn er viðurkennt og raunar óumdeilt að lax sleppur úr netapokum og því þarf að miða lagaumhverfið við þá staðreynd. Í máli þessu liggur fyrir að Artic Fish er ekki með nákvæma tölu laxa er sluppu, fylgdust ekki með kvínni í þrjá mánuði, ljósastýringingin var í algjöri ólgagi og fyrirsvarsmaðurinn var víðs fjarrri. Þarf frekari vitnana við – hættan á erfðablöndun lá skýrlega fyrir en netapokafyrirtækjunum er treyst fyrir að fylgjast með sér sjálfum. Einmitt.“

Jón Þór segir þessa niðurstöðu algjörlega í andstöðu við heilbrigða skynsemi laga og efnisleg rök. Allt að einu þá sé íslenska ríkið að kalla yfir sig skaðabótaskyldu, norskum auðmönnum til handa.


Tengdar fréttir

Lögregla hætt rannsókn á slysasleppingum í Patreksfirði

Lögreglustjórinn á Vestfjörðun hefur hætt rannsókn á slysasleppingu eldislax úr fiskeldisstöð Arctic Sea Farm ehf í Kvígindisdal í Patreskfirði í ágúst síðastliðnum en hún var hafin í kjölfar kæru Matvælastofnunar í september.

„Eitthvað sem við getum ekki samþykkt og þessu verður að linna“

Framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga býst við miklu fjölmenni á Austurvelli í dag þegar sjókvíaeldi verður mótmælt. Síðasta slysaslepping hjá Arctic Fish og afleiðingar hennar hafi fyllt mælinn og þessu verði að linna. Sýnt verður frá mótmælunum í beinni á Vísi á eftir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×