Innlent

Enn dregur úr eld­virkni en of snemmt að spá um goslok

Telma Tómasson skrifar
Mögnuð mynd sem Ragnar Axelsson náði af hraunelgnum í gærkvöldi.
Mögnuð mynd sem Ragnar Axelsson náði af hraunelgnum í gærkvöldi. Vísir/RAX

Enn virðist draga úr eldvirkni við Sundhnúkagíga eftir því sem óróagröf á Veðurstofu Íslands sýna. Þetta segir Minney Sigurðurðardóttir náttúruvársérfræðingur. 

Hún slær þann varnagla á að skyggni sé lélegt vegna snjókomu og því sé erfitt að staðfesta gögnin þar sem lítið er að sjá á vefmyndavélum.

Minney telur erfitt að meta framhaldið út frá gögnum næturinnar, fyrri reynsla sýni þó að virknin minnki og eflist í bylgjum og því alltof snemmt að staðhæfa hvort goslok séu í nánd. 

„Gögnin mín í dag sýna að það hefur dregið úr virkni gossins. Það er þó enn í gangi en mun minna en það var í gær.“

Í upphafi hafi gossprungan verið lengst um fjórir kílómetrar en það hafi breyst mikið. 

„Sprungan hefur lokast töluvert og í dag eru þetta tvær minni sprungur norðarlega í lengjunni sem eru virkastar. Það er svipuð staða og í gær. Hvað framhaldið varðar get ég ekki spáð miklu,“ segir Minney.

Nýtt hættumatskort var birt síðdegis í gær sem er í gildi til 28. desember. 

„Það eru daglegir fundir þar sem staðan er endurmetin. Næsti stöðufundur sérfræðinga verður haldinn með vísindaráði almannavarna klukkan hálftíu í dag og gefin út fréttatilkynning eftir hann.“ 

Nánast engin jarðskjálftavirkni er á svæðinu. Þrjátíu skjálftar mældust frá miðnætti en allir minniháttar, að sögn Minneyjar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×