Erlent

Má ekki vera á kjör­seðlinum í Colorado

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svo virðist vera sem hegðun forsetans fyrrverandi muni koma í bakið á honum.
Svo virðist vera sem hegðun forsetans fyrrverandi muni koma í bakið á honum. AP Photo/Reba Saldanha, File

Hæstiréttur Colorado ríkis hefur fjarlægt Donald Trump af kjörseðli ríkisins í aðdraganda forsetakosninganna og vísar til framgöngu forsetans eftir síðustu forsetakosningar.

Þar er helst átt við það þegar Trump hvatti stuðningsmenn sína og Mike Pence, þáverandi varaforseta, til að gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir staðfestingu kjörs Joe Biden eftir forsetakosningarnar 2020. Niðurstaða hæstaréttar Colorado er að það hafi jafngilt uppreisn með tilliti til stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Því sé forsetinn fyrrverandi ekki kjörgengur í þetta skiptið. Það brjóti gegn fjórtándu grein bandarísku stjórnarskránnar. Þar er þess getið að hver sá sem hafi gerst sekur um uppreisnartilburði gegn bandaríska ríkinu sé óhæfur til þess að bjóða sig fram til forseta.

Þess er getið í umfjöllun BBC um málið að ákvörðun dómstólsins hafi ekki áhrif utan Colorado ríkis. Áður hafði dómstóll á neðra dómstigi komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið ætti ekki við um Trump þar sem hann hafi verið forseti og ekkert standi um forseta í 14. grein stjórnarskránnar.

Þá kemur fram í frétt miðilsins að möguleiki verði á að áfrýja ákvörðun réttarins. Haft er eftir talsmanni Trump að niðurstaða hæstaréttar Coloroado ríkis sé „meingallaður.“ Hann segir að niðurstöðunni verði áfrýjað eins fljótt og auðið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×