Innlent

Alls ekkert túr­ista­gos

Bjarki Sigurðsson skrifar
Eldgosið hófst á ellefta tímanum í gærkvöldi.
Eldgosið hófst á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Eldgosið norður af Grindavík er alls ekkert túristagos að sögn samskiptastjóra almannavarna. Eins og er stefnir hraunið ekki í átt að Grindavík en mögulega gæti það runnið yfir Grindavíkurveg. 

Eldgosið hófst á ellefta tímanum í gærkvöldi en dregið hefur úr virkninni síðan í nótt. Þrátt fyrir það er þetta eldgos mun öflugra en síðustu þrjú á Reykjanesskaga, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarna. Hún sagði í samtali við Bítið á Bylgjunni í morgun að gosið hafi ekki komið almannavörnum á óvart.

„Þetta er ekki eitthvað sem kom okkur í almannavörnum á óvart, það er ekki þannig, eins og stóð einhvers staðar, að það hafi hafist skyndilega. Þetta er eitthvað sem við höfum verið að búast frekar við en ekki. Ekki síst eftir síðustu daga. Skyndilega kemur það upp en það kemur engum á óvart,“ segir Hjördís. 

Klippa: Bítið - Alls ekkert túristagos

Hún segir að blessunarlega sé sprungan ekki að teygja sig til suðurs í átt að Grindavík. Hins vegar þurfi viðbragðsaðilar að fylgjast vel með Grindavíkurvegi. 

„Hraunið er kannski að hóta því að fara í þá áttina. En það er fylgst áfram með þessu. Við erum öllu vön við Íslendingar, hvað þá Grindvíkingar,“ segir Hjördís. 

Hún segir gosið ekki neitt túristagos og biðlar til fólks að reyna ekki að komast að gosinu. 

„Það er ástæða fyrir því að við erum að biðja fólk um að fara ekki á staðinn. Þetta er stórt eldgos og það er gas sem er hættulegt. Þetta eru ekki bara við að vera úlfur úlfur heldur er þetta hættulegt,“ segir Hjördís. 


Tengdar fréttir

Há­al­var­­legt en léttir á sama tíma

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir það ákveðinn létti hvar gossprungan á Reykjanesskaga liggur, þrátt fyrir að það sé alvarlegt hve nálægt bænum hún er. Til skoðunar er að reisa leiðigarða á svæðinu svo hraun renni ekki til byggðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×