Lífið

Marvel stjarna dæmd fyrir heimilis­of­beldi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jonathan Majors var niðurlútur eftir dómskvaðningu í dag.
Jonathan Majors var niðurlútur eftir dómskvaðningu í dag. John Nacion/Getty Images)

Marvel stjarnan Jonathan Majors hefur verið dæmd fyrir að hafa ráðist á kærustuna sína. Réttarhöld í málinu hafa staðið yfir í hálfan mánuð en dómstóll upplýsti um niðurstöðu sína í dag. 

Majors fer um þessar mundir með hlutverk illmennisins Kang í kvikmyndaheimi Marvel. Um er að ræða risastórt hlutverk í nýjasta fasa Marvel kvikmyndaheimsins, hlutverk illmennisins sem á að taka við keflinu af Thanos. Majors hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við Creed III og Devotion.

Fyrrverandi kærasta hans, dansarinn, Grace Jabbari, sagði Majors hafa ráðist á sig í aftursæti bíls í mars síðastliðnum. Hann hafi slegið hana, haldið handlegg hennar fyrir aftan bak hennar og brákað löngutöng hennar.

Sjálfur hafði leikarinn neitað sök í málinu. Fullyrtu lögmenn hans að Jabbari hefði í raun ráðist á hann eftir að hafa lesið smáskilaboð á síma hans sem áttu að hafa verið frá annarri konu. Jabbari hafi með fullyrðingum sínum viljað ná sér niður á leikaranum.

Í umfjöllun AP kemur fram að leikarinn hafi verið dæmdur fyrir áreitni og líkamsárás. Önnur mál sem einnig hafi verið fyrir réttinum á hendur leikaranum, vegna líkamsárásar og áreitni hafi verið látin niður falla.

Dómstóll mun kveða upp refsingu yfir leikaranum þann 6. febrúar. Fram kemur í frétt AP að niðurstaðan sé mikið áfall fyrir leikarann en framtíð hans í Marvel kvikmyndaheiminum er í uppnámi. Getgátur hafa verið uppi um nokkurra mánaða skeið að kvikmyndaverið muni ekki vilja nýta sér krafta hans sem ofurillmennið Kang mikið lengur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×