Innlent

Ó­lík­legt að allir komist heim fyrir jól

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair segir stöðuna gríðarlega alvarlega.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair segir stöðuna gríðarlega alvarlega. Vísir/Vilhelm

Icelandair segir það ólíklegt að allir farþegar komist á áfangastað fyrir jól að öllu óbreyttu. Er það vegna verkfalls flugumferðastjóra sem hefur valdið umtalsverðri truflun og töfum á flugáætlun flugfélagsins.

Frekari verkföll hafa verið boðuð í næstu viku og munu þau hafa áhrif á flugátlanir á flugvellinum. Aðgerðirnar hafa þegar haft áhrif á ferðalög um þrettán þúsund farþega Icelandair og ætla þeir að í næstu viku muni 23 þúsund farþegar verða fyrir áhrifum.

Allt að milljarðs króna tjón

Icelandair gerir ráð fyrir allt að milljarða króna tjóni vegna yfirstandandi verkfalls flugumferðarstjóra. Vegna aukins farþegafjölda yfir hátíðirnar muni frekari aðgerðir leiða til enn meiri raskana með tilheyrandi kostnaði.

Núverandi áætlanir Icelandair gera ráð fyrir því að beinn kostnaður gæti numið 700 milljón krónum og allt upp að milljarði. Icelandair segist munu leita allra leiða til að fá tjónið bætt af hendi Isavia.

Áríðandi að samkomulag náist

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í dag kemur fram að verkfallið standi yfir á milli klukkan fjögur og tíu að morgni og er það þegar flestar flugvélar Icelandair frá Norður-Ameríku lendi á Keflavíkurflugvelli og flestar flugvélar til Evrópu taka á loft. Því verða íslensk flugfélög frekar fyrir áætlunarröskunum en erlend.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair segir stöðuna sem komin er upp vera alvarlega og að það sé mjög áríðandi að samkomulag náist sem allra fyrst.

„Verkfallsaðgerðirnar hafa þegar valdið fjárhagslegu tjóni sem mun aukast verulega þegar nær dregur jólum ef samningar nást ekki. Aðgerðirnar bitna mest á þeim sem síst skyldi – fólki sem er að ferðast til að hitta fjölskyldu og vini á þessum mikilvæga tíma ársins,“ segir Bogi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×