Innlent

Fauk í Guð­laug Þór á þinginu: „Nei, nei, við segjum nei!“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Guðlaugur Þór svaraði Andrési Inga fullum hálsi eftir fyrirspurn þess síðarnefnda. Guðlaugur sagði Pírata hafa lítið gert í loftslagsmálum nema standa í vegi fyrir aðgerðum.
Guðlaugur Þór svaraði Andrési Inga fullum hálsi eftir fyrirspurn þess síðarnefnda. Guðlaugur sagði Pírata hafa lítið gert í loftslagsmálum nema standa í vegi fyrir aðgerðum. Vísir/Vilhelm

Umhverfisráðherra byrsti sig í óundirbúnum fyrirspurnartíma um orkumál á Alþingi í dag. Stjórnarandstaðan hafði kynt undir ráðherra með gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnarinnar í orkumálum áður en fyrirspurn þingmanns Pírata um rafmagnsreiðhjól fyllti mælinn. 

Virkjunarkostir, niðurfelling ívilnana vegna kaupa á rafbílum og frumvarp að neyðarlögum um skömmtunarstjóra raforku voru meðal umræðuefna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og var Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, til svara.

Spurning þingmanns Pírata um rafmagnsreiðhjól og yfirlýsingar um aðgerðarleysi komu illa við Guðlaug sem svaraði fullum hálsi eins og sjá má hér að neðan:

Ríkisstjórnin ekki búin að standa sig í stykkinu í orkumálum

Þorgerður Katrín, þingmaður Viðreisnar, steig fyrst í pontu og lýsti því yfir að setja þyrfti neyðarlög í landinu af því ríkisstjórnin hefði ekki sinnt hlutverki sínu í orkumálum undanfarin sex ár. Síðan spurði hún hvort Guðlaugur væri tilbúinn til að mynda nýjan meirihluta til að tryggja öryggi Íslendinga.

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, sagði ríkisstjórnina ekki hafa staðið sig í stykkinu í loftslagsmálum.Vísir/Vilhelm

Guðlaugur gaf lítið fyrir fyrirspurn Þorgerðar og sagði mikið hafa gerst í orkumálum undanfarin tvö ár. Hins vegar hefði Þorgerður gleymt einu risamáli, það vantaði heitt vatn í Reykjavík og þar bæri Viðreisn ábyrgð.

„Af hverju erum við að setja hér neyðarlög? Af því að ríkisstjórnin er ekki búin að standa sig í stykkinu,“ svaraði Þorgerður.

Næstur til að sauma að Guðlaugi var Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sem hóf ræðu sín á að segja „Í dag erum við öll Jón Gunnarsson“ og vísaði þar í yfirlýsingar Jóns fyrr um daginn að ríkisstjórnin stæði á brauðfótum. 

Bergþór spurði síðan hvort kæmi til greina að setja sérlög um virkjunarkosti. Guðlaugur skautaði fram hjá þeirri spurningu og sagði að deilur um orkumál væru víðar en á Íslandi.

Miklar yfirlýsingar en litlar aðgerðir

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, steig þá í pontu og byrjaði á að bjóða Guðlaug velkominn heim af COP28 sem haldinn var í Dúbaí „þar sem ráðherrann eins og aðrir fulltrúar stjórnvalda mætti til að lýsa því hvernig þau væru að setja loftslagsmál í forgang“ þó hvorki tölurnar né aðgerðir sýndu það

Andrés Ingi spurði Guðlaug Þór út í ívilnanir vegna kaupa á rafmagnsbílum og rafmagnshjólum.Vísir/Sigurjón

Andrés viðurkenndi að rafbílavæðing á Íslandi hefði gengið betur en í flestum öðrum löndum en ekki skilað markmiðum um réttlát umskipti. Aðferðafræði ríkisstjórnarinnar við kerfisbreytingar á ívilnunum til rafbíla væri kostuleg.

Á sama tíma væri dregið úr stuðningi um 6,1 milljarð en þeirri upphæð hefði þó ekki verið varið í aðrar loftslagsaðgerðir heldur væri henni „stungið beinustu leið í vasann á ríkissjóði“. Samhliða væri stuðningur við reiðhjól og rafmagnsreiðhjól felldur niður.

Andrés endaði ræðu sína á að spyrja hvernig það þjónaði loftslagsmarkmiðum að fella niður ívilnanir til reiðhjóla og rafmagnsreiðhjóla.

Allir í Dúbaí áttuðu sig á orkuskiptunum

Fyrirspurn Andrésar og yfirlýsing um aðgerðarleysi kom illa við Guðlaug sem gat ekki annað en svarað fullum hálsi. 

„Það er kominn tími til að þeir sem tali fyrir loftslagsmálum átti sig á út á hvað það gengur. Það gengur út á það að taka út jarðefnaeldsneyti og setja græna orku í staðinn. Það eru allir í Dúbaí sem átta sig á því,“ sagði Guðlaugur í ræðu sinni.

Guðlaugi Þór var ekki skemmt vegna fyrirspurnar Andrésar Inga og svaraði hann þingmanninum fullum hálsi.Vísir/Vilhelm

Þegar kæmi að stórum loftslagsaðgerðum segðu þingmenn Pírata og Samfylkingar, sem alla jafna töluðu um mikilvægi loftslagsaðgerða, bara „Nei, nei, við segjum nei!“

Margt hefði gerst í loftslagsmálum en það væri ekki Pírötum að þakka þar sem þeir hefðu reynt að koma í veg fyrir það. Guðlaugur svaraði síðan ásokunum Andrésar um að sparnaðinum væri stungið í vasann á ríkissjóði.

„Ég vil bara vekja athygli á því að það sem hér er á ferðinni, og það er ótrúlegt að kjörinn fulltrúi átti sig ekki á því, er að við erum að reka ríkissjóð með halla. Hvað þýðir það? Við erum að senda reikning á börnin okkar. Það er ekki bannað að spara í ríkisrekstri, það er ekki bannað,“ sagði Guðlaugur síðan.

Það lá alltaf fyrir að það sem við erum að gera, hvort sem það er rafbílavæðing eða rafhjól eða hvað það er, er allt saman tímabundið. Það er alveg hreint og klárt. Það verður líka að vera sjálfbærni í efnahagsmálum. Og af því að hv. þingmaður kalli eftir réttlátum umskiptum þá hlýtur hann að fagna nýju fyrirkomulagi. En hann gleymdi að minnast á það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×